- Advertisement -

HVORT KJÓSUM VIÐ FARSÆLT OG HUGMYNDARÍKT SAMFÉLAG EÐA HUNDALÓGIK FRJÁLSHYGGJUNNAR

Hundalógik af þessu tagi er forkastanleg þar sem þessir herrar og þessar frúr eru ekkert í því að stofna til aukinna atvinnutækifæra fyrir borgara landsins.

Hallgrímur Hróðmarsson framhaldsskólakennari skrifar:

Margir hafa bent á að nú, þegar hörmungar sækja að okkur Íslendingum, sé lag til að snúa vörn í sókn og skapa farsælt og réttlátara samfélag. Umræða um borgaralaun er komin á dagskrá og æ fleiri gera sér grein fyrir kostum þeirra. Borgaralaun hafa lengi verið á stefnuskrá Pírata og hafa fulltrúar þeirra talað fyrir þeim af skynsemi og þekkingu. Framsetning þeirra er að borgararnir fái í hendur skilyrðislausa grunnframfærslu, sem ríkið greiðir, óháð því hvort viðkomandi sé með atvinnu eða tekjur annarsstaðar frá.

Þú gætir haft áhuga á þessum

GRUNNFRAMFÆRSLA

Borgaralaunum er ætlað að uppræta innbyggðan ójöfnuð. Skilyrðislausri grunnframfærslu er ætlað að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega; gera það réttlátara og sömuleiðis að uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu. Fátækt á Íslandi verður útrýmt – það þýðir að loforð allra stjórnmálaflokka á Íslandi um áraraðir verða efnd.

Þegar ákveðið verður að taka upp borgaralaun á Íslandi þarf að taka til alvarlegra skoðunar hvaða hópur á að fá þau. Hægt að hugsa sér að allir fái þau – það yrði tiltölulega auðvelt í framkvæmd. En það verður örugglega erfitt að fjármagna slíkan gjörning. Jóhann Þorvarðarson hagfræðingur hefur sett fram hugmyndir um borgaralaun og jafnframt reiknað út hver kostnaðurinn yrði ef hans hugmyndum yrði hrint í framkvæmd. Um hugmyndir hans má lesa í pistli í Miðjunni þann 12. maí síðast liðinn. Í pistlinum, sem nefnist Óttar Proppé er aftengdur segir meðal annars: „Ég hef sjálfur reiknað dæmið til enda og komist að þeirri niðurstöðu að átaksverkefni um borgaralaun til tveggja ára muni skila hagnaði á sjötta ári upp á 1,7 milljarða. Í mínum útreikningum þá miða ég við borgaralaun upp á 450 þúsund krónur á mánuði í tvö ár.“ Vert er að geta þess að Jóhann hefur skrifað marga pistla og fengið þá birta í Miðjunni og þeir bera þess glöggt vitni að þarna er maður sem kann til verka og nýtir vel menntun sína og þekkingu í hagfræði.

REYNSLAN FRÁ FINNLANDI

Tilraun var gerð með borgaralaun í Finnlandi og sérstaklega hugað að því að auka atvinnuþátttöku. Tryggingastofnunin Kela þar í landi taldi að tilraunin hefði misheppnast og miðaði þá við niðurstöður úr bráðabirgðamælingum. Rannsóknin var öll í skötulíki og eru menn sammála nú um það nú að tilraunin hafi heppnast framar vonum að tvennu leiti. Annars vegar reyndust borgaralaunin ekki vinnuletjandi og hins vegar upplifði fólk meira öryggi og því leið betur þar sem grunnframfærslan var tryggð. Síðara atriðið vegur mjög þungt, meðal annars vegna þess að aukin vellíðan fólks minnkar álagið á heilbrigðiskerfið til muna.

Það er sjálfsagt að líta til þessarar tilraunar hjá Finnum þegar við innleiðum skilyrðislausa grunnframfærslu hjá okkur. Einnig væri rétt að athuga hver reynslan var í Manitoba í Kanada en þar var gerð tilraun með borgaralaun. Sumir telja að innleiðing borgaralauna kosti of mikið; fjármögnunarleiðir séu óraunhæfar. Hér á eftir mun ég færa rök fyrir því að leiðin til borgaralauna er greið og vel fær.

STÖPLARIT SEM ÆTTAÐ ER FRÁ VIRÐULEGUM HAGFRÆÐINGUM

Hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins og hagfræðingur Viðskiptaráð Íslands teiknuðu saman stöplarit sem sýnir hvaða þættir hafa áhrif hagvöxtinn á Íslandi frá 2006 til okkar daga ásamt spá um hugsanlega þróun fyrir árið 2020 miðað við þrjár sviðsmyndir. Ekki þarf að draga í efa að stöplaritið sé í fullu samræmi við raunveruleikann því þessir ágætu herrar kunna vel að reikna og teikna, þó svo að það megi oft deila um hvernig þeir túlka niðurstöðurnar hverju sinni.

Við sjáum að stærstu undir-þættirnir í því að efla hagvöxt á Íslandi eru: Einkaneysla, Utanríkisverslun og Fjármunamyndun.

Einkaneyslan: Þegar við höfum nóg milli handanna þá er það mjög til bóta fyrir samfélagið; einkaneyslan eykst.

Utanríkisverslun: Ferðaþjónustan og ýmsir aðrir atvinnuvegir eru í miklum vanda núna, þó svo vandi ferðaþjónustunnar vegi þar þyngst. Stjórnvöld hafa brugðist við á margan hátt en stjórnarandstaðan og fulltrúar ýmissa hagsmunahópa hafa gagnrýnt framkvæmdirnar og áherslur ríkisstjórnarinnar. Samráð um aðgerðir er mjög
langt frá því að vera nógu gott – afspyrnu lélegt ætti ég kannski að segja.

Fjármunamyndun: Hvaða álegg er nú það? Jú, það eru fjármunir sem stór fyrirtæki og lítil skapa, svo og einstaklingar. Til dæmis má nefna að listmunir sem listamenn af öllum stærðum og gerðum skapa tilheyra þessum þætti. Þar eru einnig málverk sem okkar bestu og verstu málarar mála.

Það er hægt að rýna í það hvenær einstakir þættir hafa jákvæð áhrif á hagvöxtinn og hvenær þau eru neikvæð – það sést ef hugað er hvort stöplar undir-þáttanna eru fyrir ofan eða neðan núllið á lóðréttum ás stöplaritsins. Ég kýs að hætta mér ekki út í það enda skortir mig þekkingu til þess.

Þegar yfirlit hagfræðinganna er haft í huga, þá sést að þegar skilyrðislaus grunnframfærsla er í höfn, þá er margt sem leiðir okkur á rétta braut.

BORGARALAUN ERU BEINLÍNIS ÞJÓÐHAGSLEGA HAGKVÆM

Stjórnmálamenn á hægri vængnum hafa sagt að borgararnir hætti að nenna að vinna ef þeir fá borgaralaun áreynslulaust úr ríkiskassanum. Ég er sannfærður um að slíkir borgarar verða sárafáir. Ætli menn verði ekki fljótt leiðir á því að sitja sleitulaust fyrir framan imbakassann með popp og kók. Öryggi og vellíðan mun hvetja fólk til dáða. Það verður gaman að fara út á vinnumarkaðinn í heil störf og hlutastörf. Og svo eru allir þeir sem geta látið draumana sína rætast: bindast samtökum um útimarkaði í heimabænum og selja þar gestum og gangandi ýmsan varning, þarfan og óþarfan. Fullvíst má telja að það öryggi sem fylgir borgaralaunum muni efla og auðga starf einstaklinga svo og lítilla og stórra hópa. Prjónakonan og prjónakallinn sem prjóna íslenskar lopapeysur tvíeflast. Sýningar leikhópa; áhugamanna og þeirra sem hafa prófskírteini upp á vasann munu dafna. Framleiðsla sem seld er beint frá býli mun aukast. Og þannig má lengi upp telja.

HUNDALÓGIK NÝFRJÁLSHYGGJUMANNA

Það er kúnstugt til þess að hugsa að rök mín fyrir borgaralaunum hafa verið notuð af Nýfrjálshyggjumönnum, en á allt annan máta en ég geri. Þeir eru á móti sköttum á ofurlaun; þeir segja að hátt launaðir herrar og frúr dragi úr vinnu sinni; áhugi þeirra á að fjárfesta og stofna ný fyrirtæki dregst saman; og neysla þeirra minnki. Hundalógik af þessu tagi er forkastanleg þar sem þessir herrar og þessar frúr eru ekkert í því að stofna til aukinna atvinnutækifæra fyrir borgara landsins. Þvert á móti geyma þeir ónýtt fjármagn sitt á leynireikningum í skattaskjólum á aflandseyjum eða á öðrum stöðum sem hjúpa sig leynd. Vissulega verður neysla þeirra meiri því meira sem fjármagnið er; þeir geta þá keypt sér hraðfleygar einkaþotur og krúttlegar lystisnekkjur.

Hátt launaðir ráðherrar og bæjarstjórar út um allt land; bankastjórnendur og stjórnendur stórra fyrirtækja þola vel að borga sérstakan ofurlaunaskatt. Með honum fengjum við mikið fjármagn sem hægt væri að nýta í borgaralaunin.

Einnig mætti fá inn mun meira fjármagn í ríkiskassann með því að hækka gjöld fyrir afnot af auðlindum okkar Íslendinga. Við ættum að taka frændur okkar Norðmenn til fyrirmyndar, en þeir hafa verulegar tekjur af sölu afnotanna af auðlindum Noregs. Í dag er ástandið þannig hjá okkur að útlendir fjáraflamenn flytja starfsemi sína til Íslands vegna þess að auðlindagjaldið sem þeir borga fá þeir hér á spottprís –  jafnvel gefins.

Notum tækifærin nú til að skapa auðugra Ísland

Við höfum upplifað Hrunið en við höfum dregið skynsaman lærdóm af því hvernig við tækluðum vandamálin sem við stóðum frammi fyrir þá. Stöndum okkur betur núna og sköpum mannúðlegt samfélag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: