
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Ákveði hann að nota texta óbreyttan frá öðrum þá ber honum að hafa ritmálið innan gæsalappa og vísa með neðanmálsgrein eða aftast hvaðan textinn er fenginn að láni.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er í nauðvörn. Fyrst gagnvart Bergsveini Birgissyni rithöfundi og nú gagnvart Árna H. Kristjánssyni sagnfræðingi. Báðir bera á hann ritstuld, að ræna sig sæmdar og höfundarrétti á rituðum texta og hugmyndum. Sá síðarnefndi hefur fengið það endanlega staðfest af hlutlausum aðilum á vegum Alþingis að Ásgeir hafi notað skrif hans án þess að geta heimilda eins og Ásgeiri ber að gera. Aðilarnir sem fóru í saumana á ásökunum Árna komust orðrétt að eftirfarandi niðurstöðu „Niðurstaða okkar er sú að í allnokkrum tilvikum sé texti skýrslunnar svo líkur texta Árna H. Kristjánssonar, bæði varðandi orðalag og efni, að telja megi án vafa að um ritstuld sé að ræða“.
Nú reynir seðlabankastjórinn að fela sig að baki Alþingi svona eins og að stuldurinn verði eitthvað minni eða lítilfjörlegri fyrir vikið. Segir að vegna þess að hann var að vinna í umboði eða á vegum Alþingis að þá geti hann bara rofið sæmdar og höfundarrétt manna út í bæ. Dapurlegri getur réttlæting þjófs ekki orðið. Er í engu betri en „af því bara“ útskýring fimm ára barns sem stalst í kökuboxið.
Ásgeir er með langt háskólanám að baki frá misgóðum skólum. Hann hefur einnig starfað innan veggja Háskóla Íslands um árabil við kennslu. Hann veit vel að honum ber að gæta vel að heimildum og tilvísunum þegar hann styðst við hugverk annarra manna. Ákveði hann að nota texta óbreyttan frá öðrum þá ber honum að hafa ritmálið innan gæsalappa og vísa með neðanmálsgrein eða aftast hvaðan textinn er fenginn að láni. Annað er ritstuldur, líka að lögum! Alþingi Íslands er ekki skálkaskjól ritstuldar.
Annars er ég að spá í að gefa út bók sem mun bera heitið Eyjurnar hans Ingólfs og nota allan textann úr bókinni Eyjan hans Ingólfs eftir Ásgeir óbreyttan. Ég mun ekki geta heimilda og ætla að eigna mér bókina hans frá a-ö og rjúfa sæmdarrétt Ásgeirs. Svo mun ég bara segja eins og Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst, segir í umsögn á fésbók Ásgeirs „Að allar hugmyndir hafi verið áður til umfjöllunar“. Þar næst ætla ég að eigna mér næstu bók Yrsu Sigurðar.