- Advertisement -

Icelandair Group með loftfimleika

Þar á eftir kemur spursmálið hvernig ferðavilji fólks mun þróast.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mann rekur í rogastans við það að lesa fjárhagsskýrslu Icelandair Group fyrir fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs. Þar sem reikningarnir eru ekki staðfestir af löggiltum endurskoðendum fær það mann til að setja marga fyrirvara varðandi innihaldið. Reikningarnir eru óglöggir og erfitt reynist að rekja sig í gegnum þá. Forsendur fyrir ýmsu virðismati er af skornum skammti og aðrar uppgefnar forsendur alveg úr takti við raunveruleikann. Svo er stór og mikilvæg stærð ranglega bókfærð sem dregur enn frekar úr upplýsingagildi reikninganna, en ég mun fjalla um það mögulega síðar. Allt er þetta grafalvarlegt. Alveg sér í lagi þar sem forráðamenn Icelandair Group sækja stíft á lífeyrissjóði landsins um að fá aukið hlutafé frá þeim. Svo hefur fyrirtækið óskað eftir því að skattborgarar landsins veiti fyrirtækinu ríkisábyrgð á nýjar lántökur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á myndinni hér til hliðar gefur að sjá þróun eiginfjár sem hlutfall af allri fjármögnun félagsins. Það hefur lækkað stöðugt síðan árið 2015. Forráðamenn fyrirtækisins upplýsa í 6 mánaða uppgjörinu að hlutfall eiginfjár hafi staðið í 11 prósentum undir lok júní. Það er mikið ofmat að mínu viti. Í reikningunum er til dæmis að finna eignfærslu á ýmiskonar viðskiptavild og öðrum óefnislegum eignum upp á 7,5 milljarða króna. Allt eru þetta óseljanlegar eignir sem ekki eru að skapa nein umfram rekstrarverðmæti í núverandi markaðsástandi. Þannig verður þetta næstu árin því hjarðónæmi gagnvart veirunni tekur mörg ár að byggjast upp. Þar á eftir kemur spursmálið hvernig ferðavilji fólks mun þróast. Ein af forsendum fyrir þessu milljarða virðismati forráðamanna Icelandair Group er að að ferðaiðnaðurinn muni vaxa um 2 prósent að jafnaði á næstu árum. Ég spurði hund nágrannans hvað honum þætti um þetta. Hann lagðist á grúfu og setti loppurnar yfir augun.

 Við núvirðingu á óefnislegum eignum þá styðst fyrirtækið við sömu ávöxtunarkröfu upp á 10 prósent og átti við á árinu 2019. Svona eins og að ekkert hafi breyst. Nær væri að notast við kröfu upp á 50 prósent ef menn ætla endilega að rembast við að núvirða eitthvað sem ekki er neitt. Það eina sem er einhvers virði af þessum óefnislegu eignum gæti kannski verið lendingarstæðin á ýmsum flugvöllum. Þar er óvissan samt einnig mikil. Ég hef varan á og tel ásættanlegt að meta stæðin á 2,4 milljarða króna. Saman tekið þá þarf að afskrifa þessar óefnislegu eignir um 5 milljarða vegna núverandi ástands.

Síðan er það virðismat forráðamanna Icelandair Group á hinu margumrædda fyrirtæki Lindarvatni ehf (Landsímareiturinn). Eins og frægt er þá hefur þessi eign verið bókfærð á 1,9 milljarða í bókum félagsins. Í lok júní þá var eignin metin á   1,6 milljarða þrátt fyrir að engin starfsemi sé hafin eða muni hefjast að marki á næstu árum. Þetta er hótel sem skuldar nú þegar 12 milljarða samkvæmt opinberum veðbókarvottorðum og auknar skuldir gætu verið í kortunum ef forðast á mögulegt gjaldþrot Lindarvatns. Mikið vafamál er hvort þessi fjárfesting muni skila ábata á næstu tveimur áratugum að óbreyttu. Þetta er eign sem er stórlega ofmetin og ber að færa hana niður í eina krónu formsins vegna. Samantekið þá er raunverulegt hlutfall eiginfjár 6 prósent, en ekki 11 prósent, samanber myndin sem fylgir. Það er sorglegt til þess að vita að á sama tíma og sótt er í fjárfestingarfé lífeyrissjóða að þá eru settir fram óhaldbærar fjárhagsskýrslur!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: