- Advertisement -

Illa unnið verk

Ríkisstjórn Íslands ákvað að fara aðra leið við sölu hlutabréfa í Íslandsbanka.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Efnahags og framfarastofnunin eða OECD sendi frá sér skýrslu fyrir nokkrum árum um aðferð einkavæðingar í aðildarlöndum samtakanna. Undantekningarlaust er farin sú leið að styðjast við uppboð meðal stórs hóps fjárfesta til að laða fram markaðsverð. Í fyrstu þá byggja hugmyndirnar á hlutaupplýsingum um starfsemina sem einkavæða á. Þeir sem bjóða hæst komast áfram í undanúrslit. Þegar þangað er komið er trúnaðarsamningur um þagmælsku undirritaður við keppendurna og hinum sömu veittur aðgangur að stafrænu gagnaherbergi með tæmandi upplýsingum um starfsemina sem selja á.

Í undanúrslitum þá sigra þeir sem  eiga hæstu verðtilboðin. Þetta endurtekur sig í úrslitaleiknum þar sem fjárfestar gera að lokum bindandi verðtilboð. Þannig að ferli verðmyndunar er í nokkrum þrepum og fyrirkomulaginu svipar til Evrópukeppninnar í fótbolta. Þó er sú undantekning á að ríkisvaldið getur hafnað úrslitum þyki framkomið verð of lágt. Þegar formleg sala hefst þá er hægt að opna öðrum aðgang á því verði sem mótast hefur. Með þessari tilhögun næst fram hámarksverð miðað við ríkjandi markaðsaðstæður og væntingar. Önnur skipan er að setja verðið hátt strax í upphafi og kanna áhuga fjárfesta. Sé hann lítill eða ekki fyrir hendi þá er verðið lækkað þar til eftirspurn myndast. Lykilatriðið er að margir komi að verðmynduninni.

Sjóðir sem mögulega leppuðu ríka íslenska einstaklinga.

Ríkisstjórn Íslands ákvað að fara aðra leið við sölu hlutabréfa í Íslandsbanka. Í staðinn fyrir uppboðsleiðina var stuðst við óbindandi álit þröngs hóps ráðgjafa, sem sumir eiga í vinfengi við fjármálaráðherra landsins. Ríkisstjórnin ákvað auk þess að fylgja ekki hæsta verðmatinu heldur skrúfa verðið handvirkt niður svo fámennur hópur gæti grætt hressilega á kostnað almennings á fáeinum klukkustundum. Hliðarmarkmið eins og það að laða sem flesta að hlutabréfakaupunum var yfirvarp. Margir seldu bréfin sín strax á fyrstu dögum skráðra viðskipta í kauphöllinni enda engin skilyrði sett um hversu lengi ætti að eiga hlutabréfin. Á meðal fjárfesta sem seldu voru erlendir fjárfestingarsjóðir samkvæmt fréttum. Sjóðir sem mögulega leppuðu ríka íslenska einstaklinga. Þannig að fjöldi hluthafa fer hratt minnkandi og munu hlutabréfin safnast á fáar hendur vegna lágs upphafsverðs.

Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í málinu minna á vinnubrögð rússneskra stjórnvalda þegar hluti olíuauðlinda Rússlands voru seldar vildarvinum valdhafa á málamyndarverði. Mönnum sem áttu ekki túkall en höfðu aðgang að lánsfé hjá ríkisbönkum Rússlands í gegnum pólitísk vinatengsl. Ríkisstjórn Íslands er með illa unnið verk á samviskunni. Almannahagsmunir voru ekki leiðarljósið við sölu hlutabréfanna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: