
Aðeins 26 dauðsföll eru rakin til kóvíd-19 á eyjunni ílöngu á sama tíma og þau eru 29 á Fróni.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Nýja Sjáland greip til harðra aðgerða í upphafi faraldursins. Landinu var til dæmis lokað á landamærum 19 mars 2020 fyrir öllum nema Sjálendingum sem vildu snúa heim og íbúum „Cokk Islands“. Síðan hefur verið opnað fyrir farþega frá svæðum sem liggja að Kyrrahafinu að uppfylltum afar ströngum skilyrðum. Þar á meðal er að farþegi þarf að dvelja í samþykktum sóttvarnarhúsum sem lúta eftirliti í tvær vikur og mælast neikvæður við lok dvalarinnar. Við komuna til landsins þá þarf að framvísa staðfestingu að farþegi eigi frátekið pláss í sóttvarnarhúsi, en framboð sóttvarnarhúsa er takmarkað. Forsætisráðherra landsins, Jacinda Arden, sagði nýverið að landið yrði mögulega lokað út þetta ár fyrir öðrum heimshlutum vegna mikillar smithættu.
Til viðbótar þessu þá var landinu um tíma hólfaskipt um leið og gripið hefur verið til hefðbundinna sóttvarna. Árangurinn lét ekki á sér standa. Samtals hafa einungis 2.476 manns smitast á Sjálandi á meðan fjöldinn er 6.158 manns á Íslandi. Aðeins 26 dauðsföll eru rakin til kóvíd-19 á eyjunni ílöngu á sama tíma og þau eru 29 á Fróni. Þetta vekur athygli þegar haft er í huga að mannfjöldi Ný Sjálendinga er um 5 milljónir manna.
Árangurinn byggir á einfaldri afstöðu stjórnvalda.
Fyrir utan smá bylgjuskot í upphafi faraldursins þá hafa engar smitbylgjur herjað á Ný Sjálendinga. Árangurinn byggir á einfaldri afstöðu stjórnvalda. Til að opna landið fyrir erlendum ferðamönnum þá þarf annað hvort að liggja fyrir fullvissa um að bólusettir geti ekki borið smit eða að þjóðin hafi náð hjarðónæmi. Leikreglurnar eru auðskildar og ekki er látið undan sérhagsmunum ferðaþjónustunnar.
Samhliða lokun Nýja Sjálands þá var farið í kröftugar örvunaraðgerðir. Þar inn í er aukning innviðafjárfestinga hins opinbera upp á 3,7 prósent af landsframleiðslu, sem byrjað var á snemma í faraldrinum. Aðrar aðgerðir og áætlanir nema hlutfallslega 15 prósentum landsframleiðslunnar. Nú þegar er búið að ráðstafa 60 prósent fjárhæðarinnar þó ekki sé endilega búið að ljúka þeim. Árangurinn lét ekki á sér standa. Samdráttur síðasta árs var ekki nema 2,9 prósent á sama tíma og hann var 6,6 prósent á Íslandi. Almennt atvinnuleysi er einnig miklum mun minna eða 4,9 prósent þegar það mælist 12,5 prósent á Íslandi.
Ef Ísland hefði gripið til sambærilegra ráðstafana og Ný Sjálendingar þá væri staðan önnur og betri. Við værum til dæmis ekki að glíma við fjórðu bylgjuna, hefðum sloppið við þá þriðju og atvinnuleysi væri að miklum mun minna. Páskarnir myndu líta betur út, jákvæður snúningur væri á ferða- og veitingaþjónustu og skólar opnir. Í staðinn þá er margt nálægt frosti á Fróni og álagið á Landsspítalanum að aukast.
Árangur Ný Sjálendinga hrekur hugarburð Sigríðar Andersen og Brynjars Níelssonar.
Árangur Ný Sjálendinga hrekur hugarburð Sigríðar Andersen og Brynjars Níelssonar um að strangar sóttvarnir séu til vandræða. Þær varpa einnig ljósi á lítilfjörlegar og rangar efnahags ákvarðanir ríkisstjórnar Katrínar Jak. Stjórnin hefur síðan margsinnis bugast undan kröfum ferðaþjónustunnar með þeim afleiðingum að búið er að missa tökin á atburðarásinni öðru sinni á fáeinum mánuðum. Eins og alltaf í þessu máli þá hittir Inga Sæland og Flokkur fólksins naglann á höfuðið þegar krafist er lokun landamæra. Það þjónar almannahagsmunum best, skapar mestu verðmætin að öllu öðru jöfnu. Staðfesta stjórnvalda á Nýja Sjálandi er til eftirbreytni. Óhætt er að segja að Katrín Jak standi stöllu sinni Jacindu Arden langt að baki í vörnum landsins. Tímabært er því að ríkisstjórnin loki á yfirgang Samtaka atvinnulífsins og undirsamtaka þess.