- Advertisement -

Ísland og Ísrael með sömu þráhyggjuna

Smámyntir eru ekki sjálfstæðar þó vitgrannir aðilar haldi öðru fram.

Jóhann Þorvarðarson skriffar:

Stundum er gott að skoða reynsluheim annarra þjóða og draga lærdóm. Ísrael eins og Ísland er með eigin gjaldmiðil, smámyntina shekel. Smámynt segi ég þó Ísrael sé tuttugu og þrisvar sinnum fjölmennara en Ísland. Shekel er nefnilega örmynt við hliðina á meginstraums gjaldmiðlunum tveimur í heiminum, evru og dollar. Shekel glímir samt við sömu vandamál og krónan etur við enda hagkerfi beggja mynta háð milliríkjaviðskiptum. Báðir gjaldmiðlarnir glíma við skort á tiltrú og greiðslujafnvægi er ekki daglegt brauð. Ísrael er aftur á móti sokkið dýpra í sinni afneitun um að geta haldið úti eigin gjaldmiðli og því er hægt að sjá fyrir hvert stefnir með Ísland ef núverandi stjórnvöld fá að halda áfram óáreitt.

Frá árinu 2002 þá hafa engar hömlur verið á peningahreyfingar til og frá Ísrael og notkun á erlendum gjaldmiðli manna á milli (aðallega dollar) dags daglega er heimiluð. Árangurinn af frelsinu er óumdeildur. Verðbólga og atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt og var komið á samkeppnishæft stig fyrir kóvít-19 faraldurinn. Hagvöxtur Ísraela hefur einnig verið prýðilegur. Síðan hafa stýrivextir Seðlabanka Ísrael elt stýrivexti Seðlabanka Evrópu og Bandaríkjanna. Á umliðnum árum þá hafa þeir verið í og við núll prósent.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verið er að færa vandann yfir á kynslóðir framtíðarinnar.

Gengishreyfingar „shekelsins“ eru sama vandamálið fyrir Ísrael og gengi krónunnar er á Íslandi. Ójafnvægi í erlendu greiðsluflæði og skortur á tiltrú veldur óstöðugleika og raskar samkeppnishæfni landanna. Seðlabanki Ísrael hefur gripið til íslenskra loftfimleika. Ekkert hefur dugað til því markaðurinn sér alltaf við handstýrðum úrlausnum sem ekki endurspegla markaðsástand hverju sinni. Það viðhorf er uppi víða að inngrip á gjaldeyrismarkað sé ekkert annað en niðurgreiðsla gjaldmiðils eða með öðrum orðum ríkisstuðningur af vondri sort. Sjálfur hef ég sett fram áþekkt viðhorf í mínum skrifum hér á Miðjunni. Afleiðingin er að samkeppnishæfni hagkerfisins verður fyrir röskun og illa reknum og vanfjármögnuðum  fyrirtækjum er haldið á floti á kostnað góðra fyrirtækja. Neytendur tapa á þessu á endanum.   

Eftir sífelld inngrip á gjaldeyrismarkað á umliðnum tveimur áratugum þá er stærð gjaldeyrisvarasjóðs Ísraels orðinn 45 prósent af stærð hagkerfisins. Vöxtur forðans frá fjármálahruninu er með ólíkindum. Síðasta ár einkenndist síðan af ofvaxtarkipp. Svona þróun getur ekki haldið áfram endalaust enda er hún úr takti við hagvöxt landsins. Verið er að færa vandann yfir á kynslóðir framtíðarinnar og á endanum mun gjaldmiðillinn hrynja með tilheyrandi óðaverðbólgu ef ekki er snúið til betri vegar. Að telja sér trú um að hægt sé að halda úti smámynt í nútímanum felur í sér geipilegan fórnarkostnað og óhagræði. Á ferðinni er hrein sjálfsblekking. Í þessu samhengi þá auka rafmynntir vandann.

Hagstjórnendur í Ísrael hafa verið að bíða eftir að vextir í heiminum fari aftur upp á við í mörg ár til að að geta losað um forðann. Biðin er engan veginn á enda. Það leiðir okkur að kjarna vandamáls örmynta. Þær eru fullkomlega háðar peningastjórn meginstraums gjaldmiðla. Seðlabanki Evrópu og Bandaríkjanna eru við stýrið. Smámyntir eru ekki sjálfstæðar þó vitgrannir aðilar haldi öðru fram. Valdaöfl í Ísrael eins og á Íslandi þráast við að taka upp meginstraums gjaldmiðil vegna þess að sjálfsmynd þjóðar er ruglað saman við gjaldmiðil. Þarna á milli er aftur á móti ekkert sama sem merki. Gjaldmiðill er fyrst og síðast greiðslumiðlunartæki sem þarf að búa yfir trausti og trúverðugleika. Shekelinn og krónan búa yfir hvorugu á alþjóða vettvangi eins og allar aðrar örmyntir. Þess vegna hafa jarðarbúar og alþjóða fyrirtæki sett traust sitt á tvo gjaldmiðla, evru og dollar. Ef íslensk stjórnvöld vakna ekki þá mun tvöfalt gjaldmiðlakerfi þróast á Íslandi. Við fundum smjörþefinn af slíku þegar ferðamannabólan var ósprungin.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: