
Jóhann Þorvarðarson:
Vextir voru lækkaðir í sögulegt lágmark um leið og seðlabankastjóri gaf út yfirlýsingu um að vextirnir væru komnir til með að vera lágir. Fólk var klappað áfram til að skuldsetja sig.
Íslandssagan er uppfull af alls konar dæmum um hvernig íslenskri þrælslund er haldið við. Eins og til dæmis þegar haftabúskapur var á Íslandi. Hann tryggði samkeppnisleysi og fákeppni, jafnvel einokun.
Veiðar á Íslandsmiðum eru lokaðir nema útvöldum útgerðarfjölskyldum. Strandveiðar eru eins og brauðmylsnan, sem fellur til þegar brauðið er skorið í sneiðar til að þagga niður í sjómönnum. Þeir sem áhuga hafa á sjálfstæðri sjómennsku er skammtaður svo þröngur stakkur að hinir sömu eru við landfestar átta mánuði á ári. Engin samkeppni er um veiðarnar því sami útgerðaraðallinn dólar sér við veiðar eftir hentugleika í gegnum samþjappað kvótakerfið. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn kallar frelsi.
Svo langt er gengið í ánauð sjómanna að frekar skal sleppa því að veiða makrílinn, en að gefa veiðarnar frjálsar eins og Sigurjón Þórðarson benti á í grein sinni „Hroki á heimsmælikvarða“. Já, og allt er þetta með samþykki Vinstri grænna.
Heilbrigðisstarfsfólk hættir í umvörpum að starfa á þjóðarsjúkrahúsinu vegna vinnuoks, vondra aðstæðna og lakra kjara. Ríkisstjórnin, í gegnum Sjúkratryggingar, semur síðan ekki við lækna svo fólk með lítil fjárráð geti ekki sótt sér nauðsynlega læknaþjónustu öðruvísi en að nærast bara annan hvern dag. Margir sleppa því að sækja heilbrigðisþjónustu vegna fátæktar. Jafnt aðgengi að þjónustunni er bara fyrir suma samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Svo er fólk narrað til að sýna sjálfstæði og kaupa sér eigin íbúð í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins. Vextir voru lækkaðir í sögulegt lágmark um leið og seðlabankastjóri gaf út yfirlýsingu um að vextirnir væru komnir til með að vera lágir. Fólk var klappað áfram til að skuldsetja sig. Nú er seðlabankastjórinn búinn að ginna nógu marga og ákveður þá að skjóta stýrivöxtum til himna eins og myndin sýnir.
Íslenskir vextir turnar vexti allt í kringum okkur og eiga margir skuldarar um sárt að binda. Fólkið hélt að seðlabankastjóra væri treystandi, en tálið var fals í þjónkun við auðvaldið. Skuldarar eru ósjálfstæðari en nokkru sinni fyrr. Ekki eru þó allir ósáttir því auðvaldið og bankar skála í bleikt freyðivínið. Best leiðin úr ánauðinni er að Ísland tilheyri sterku gjaldmiðlasvæði, sem hneppir ekki skuldara í blóðuga skuldaól í sérhagsmunagæslu hinna fáu. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti framþróuninni.