- Advertisement -

Íslenskt okur og þrælahald

Ef ég dreifi vaxtaokrinu á fjölda fjölskyldna sem skulda húsnæðislán þá eru þetta 242 þúsund krónur á fjölskyldu á ári.

Jóhann Þorvarðarson skrifar.

Sá sem tekur óverðtryggt íbúðalán upp á 22,5 milljónir króna til 25 ára hjá Landsbankanum með fasta vexti í 5 ár endar á að greiða til baka 36,5 milljónir króna. Í Þýskalandi þá er endurgreiðslan einungis 25,5 milljónir króna og er vaxtamunurinn landanna sýndur á stöplariti með pistlinum. Þjóðverjar eru öflugir, íbúðalán til 25 ára bera um 1 prósent breytilega vexti nú um stundir. Í Noregi þá eru vextir á húsnæðislánum 2,99 prósent þrátt fyrir að verðbólga þar í landi sé á íslenskum slóðum, jafnvel hærri.

Að teknu tilliti til verð- og launamunar milli Íslands og Þýskalands þá reiknast mér til að íslenskt okurálag á húsnæðislán sé að lágmarki 1,8 prósentustig. Þannig að miðað við hvernig Þjóðverjar haga sínum málum þá ættu húsnæðisvextir á Íslandi í dag að vera 2,2 prósent.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Myndin er í raun mun verri því margir íslenskir lánendur lána á hærri vöxtum en Landsbankinn. Þar má til dæmis nefna Lífeyrissjóðinn Brú sem er með marga viðskiptavini sem greiða fasta vexti upp á 5,6 prósent. Brú er því með 155 prósent okurálag miðað við Þýskaland. Svona er þetta víðar á Íslandi.

Í dag eru skuldir heimilanna yfir 2.000 milljarðar króna og eru ofteknir vextir því 36 milljarðar króna á ári. Í þessum útreikningi miða ég eingöngu við þetta lágmarks okur upp á 1,8 prósentustig. Talan er mun hærri, en það kallar á flókna útreikninga að kalla þá tölu fram sem ekki rúmast innan þessa pistils. Ef ég dreifi vaxtaokrinu á fjölda fjölskyldna sem skulda húsnæðislán þá eru þetta 242 þúsund krónur á fjölskyldu á ári. Það væri myndarleg kjarabót fyrir fjölskyldur að hafa þetta fé til ráðstöfunar og alveg sérstaklega núna þegar kreppir að.

Það er um gríðarlega mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir skuldsetta launþega að hér verði tekin upp trúverðugur og öflugur gjaldmiðill. Losna myndi um hina blóðugu skuldaól um háls skuldarans. Hundruð milljarða yrðu eftir í vösum almennings í stað þess að fara í vasa okurlánara. Launþegar yrðu ekki lengur skuldaþrælar í eigin landi. Svo má ekki gleyma að hærri vextir hækka einnig húsaleiguverð í landinu. Þannig að hér er um skipulagt arðrán að ræða í skjóli krónunnar. Okrarar nýta sér neyð fólks því allir þurfa þak yfir höfuðið á veðrasamri eyju.

Þögnin sem ríkt hefur um þetta mikla hagsmunamál almennings sæmir sér vel í líkhúsi.

Þögnin sem ríkt hefur um þetta mikla hagsmunamál almennings sæmir sér vel í líkhúsi. Aftur á móti er tímabært að opna fyrir umræðuna og leyfa henni að springa út þvert á vilja þrælahaldaranna.

Nú býr svo við að verðbólguvæntingar eru á uppleið á Íslandi og þar spilar inn í stöðug veiking krónunnar. Veikingin veldur því að ekki er hægt að búast við að vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands undanfarnar vikur skili sér í því mæli sem að var stefnt. Þið sjáið að krónan er enn einu sinni skaðvaldur, algjört skaðræði. Þegar kórónuveiran reið yfir þá var hægt að taka krónuna tímabundið af markaði, en valdhafar kusu að gera svo ekki. Í staðinn var ákveðið að rýra kaupmátt almennings og vinna gegn markmiðinu að vextir íbúðalána lækki eins mikið og vonir stóðu til við undirritun Lífskjarasamninga. Forsendur samningsins eru einfaldlega brostnar og valdhafar hafa brugðist illilega!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: