
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Nú þegar fylgið hrynur af stjórnarflokkunum þá eygjum við kannski von um breytingar, en þá bregður svo við að Samfylkingin jaðarsetur evruna. Ég tel mistökin geta orðið jafn afdrifarík og ákvörðun Samfylkingarinnar um að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrir fjármálahrunið.
Þegar maður lítur yfir íslenskt samfélag þá blasir við að valdaelítan, þ.e. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og ríkustu tuttugu prósentin, viðheldur forréttindastöðu sinni með framboðsskorti á ýmsum sviðum. Skorturinn ásamt yfirráðum yfir áróðursmiðlum hefur tryggt óbreytt ástand um áratuga skeið.
Kvótakerfið er ekki annað en Berlínamúr utan um fiskveiðar því búið er að loka útveginum fyrir nýliðun. Tækifæri ungu kynslóðarinnar til sjálfstæðrar atvinnusköpunar í sjósókn er fyrir bí. Fáeinar fjölskyldur og fyrirtæki ríkja innan 200 mílna múrsins (miðin og landið talið saman) og strandveiðar í núverandi mynd eru sýndarmennska. Flestir strandveiðisjómenn stunda aðra atvinnu samhliða. Enn aðrir stunda veiðarnar sem áhugamál eða búbót.
Þeir sem samt vilja stunda sjóinn eru því undir hælnum á kvótagreifum þar sem þrælslundin braggast sem aldrei fyrr. Sjómaðurinn þarf til dæmis að gefa afslátt af launum sem kvótagreifarnir nota síðan í nýfjárfestingar utan sem innan útgerðarinnar. Fyrir fáeinum árum þá skikkaði útgerðaraðallinn sjómenn til að mæta í sjóstökkum sínum niður á Austurvöll til að andmæla lagafrumvarpi sem hefði minnkað rjómatertu kvótaeigenda. Þá var einnig hótað að sigla flotanum í höfn og stöðva veiðar ef farið yrði gegn hagsmunum kvótagreifa.
JÞ:
Reksturinn fór í þrot með miklum hvelli vegna fúsks feðganna og fór svo að KS tók allt heila klabbið yfir í gegnum dótturfélag sitt Fóðurblönduna.
Annar Berlínarmúr er utan um mjólkurframleiðslu, en sá sem dreymir um að gerast kúabóndi þarf fyrst að kaupa mjólkurkvóta eða erfa slík réttindi nema að viðkomandi gerist leiguliði elítunnar.
Í þessu samhengi þá þarf vart að rifja upp fyrir lesendum Miðjunnar að mjólkurkvóti getur verið braskvara alveg eins og fiskveiðikvótinn. Alræmdu feðgarnir, Einar Daðason og Ásmundur Daði Einarsson ráðherra, ráku til dæmis stærsta kúabú landsins á Mýrum í Borgarfirði undir handarkrika Kaupfélags Skagfirðinga (KS). Kaupfélagið átti mjólkurkvótann í formi veðláns í mjólkurkvótanum, sem ekki þurfti að greiða af. Reksturinn fór í þrot með miklum hvelli vegna fúsks feðganna og fór svo að KS tók allt heila klabbið yfir í gegnum dótturfélag sitt Fóðurblönduna. Skollaleikurinn byrjað síðan upp á nýtt á sama stað, en nú með nýju fólki.
Þriðji Berlínarmúrinn er húsnæðismarkaðurinn, en hann lítur skortstýringu eins og fiskveiðarnar og mjólkurframleiðslan. Eftir að uppbygging húsnæðis var græðgisvædd í upphafi aldarinnar þá hefur ríkið setið á mikilvægum byggingalóðum og gerir enn. Nærtækt dæmi er Keldnaholt í Reykjavík, sem þar til nýlega fékkst ekki undir uppbyggingu íbúðahverfis. Samt hefur engin uppbygging hafist því Sjálfstæðisflokkurinn gerir allt til að tefja Borgarlínuverkið með ómálefnalegu lastatali.
Byggingarverktakar hafa síðan legið árum saman á stórum lóðum og aðeins byggt í takt við eigin gróðahyggju á sama tíma og fólk býr í lekum hreysum. Launþegahreyfingin hefur reynt að stíga inn með eigin byggingum á íbúðamarkaði, en það dugar ekki til. Heildarmyndin er lítið breytt. Ég tel síðan að lóðaskortur, sem reynt er að klína á sveitarfélögin af pólitískum lukkuriddurum, sé ekki annað en hræðsluáróður Sjálfstæðismanna í höfuðborginni.
JÞ:
Efnameiri einstaklingar geta aftur á móti keypt sig fram hjá múrnum með því að fara erlendis eða inn á dýrar einkastofur á höfuðborgarsvæðinu.
Við getum fært okkur yfir í heilbrigðisgeirann, en landlægar biðraðir eftir heilbrigðisþjónustu eiga rætur sínar að rekja til skorts. Of fáir heilbrigðisstarfsmenn og aðstöðuskortur er pólitísk ákvörðun með það markmið að troða einkavinavæðingu heilsunnar með illu niður um kok landsmanna. Skorturinn er ígildi Berlínarmúrs um heilsu fólks. Efnameiri einstaklingar geta aftur á móti keypt sig fram hjá múrnum með því að fara erlendis eða inn á dýrar einkastofur á höfuðborgarsvæðinu.
Haghegðun skipafélaganna er annað dæmi um skortstýringu. Samráð félaganna um að draga úr þjónustu, fækka siglingaleiðum og flutningaferðum á landi var gert í því augnamiði að draga úr samkeppni og búa til peningakýr fyrir galna hrunamenn. Það leiddi af sér miklar verðhækkanir og aukna verðbólgu samkvæmt skýrslu Samkeppniseftirlitsins.
Í samstarfi við Faxaflóahafnir, og þar með opinbera aðila við Flóann, þá einoka skipafélögin alla hafnaraðstöðu í Flóanum. Önnur skipafélög komast ekki að vegna skorts á viðleguköntum og afgreiðsluþjónustu. Um Faxaflóa liggur rammgerður Berlínarmúr.
Bann við frjálsum innflutning landbúnaðarvara hefur stuðlað að framboðsskorti og minni fjölbreytileika eins og dæmin sanna. Sá innflutningur sem er síðan heimilaður er tollaður upp fyrir rjáfur. Og þeir sem sjá um innlenda landbúnaðarframleiðslu kaupa upp allan innflutningskvóta til að hefta samkeppnina í anda skortslögmálsins. Við sjáum því Berlínarmúr í matarhillum verslana á hverjum degi.
Salan á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka var umlukin Berlínarmúr enda gætti formaður Sjálfstæðisflokksins vel upp á að aðeins útvaldir fengju að kaupa hlutabréf af ríkinu. Þar á meðal var pabbi formannsins. Ekki var látið reyna á samkeppni eftir bréfunum í formi útboðs, en sú leið hefði skilað meiru í ríkiskassann en raunin varð. Í söluferlinu var stuðst við algjörlega óhæfa aðila innan Bankasýslunnar, en stofnunin er ekki annað en hluti af jakkalafi formanns Sjálfstæðisflokksins.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og Orri Hlöðversson formaður bæjarráðs pössuðu vel upp á að engin samkeppni yrði um Reit 13 á Kársnesinu og sýndu þau þar með af sér afar slæma haghegðun. Eingöngu var rætt við einn þóknanlegan fjárfesti og fyrir vikið varð Kópavogur af sölutekjum upp á hundruð milljóna króna samkvæmt áliti minnihluta bæjarins. Berlínarmúr Ásdísar og Orra var svo leynilegur að aðrir meðreiðarsveinar í meirihlutanum voru utan múrsins þar til kom að því að ræða samninginn í bæjarstjórn.
JÞ:
Landsvirkjun er engin eftirbátur í þessum efnum en fyrir skömmu síðan var nágranni og vinur formanns Sjálfstæðisflokksins handvalinn til að höndla með sölu á umframorku.
Landsvirkjun er engin eftirbátur í þessum efnum en fyrir skömmu síðan var nágranni og vinur formanns Sjálfstæðisflokksins handvalinn til að höndla með sölu á umframorku. Ekki mátti bjóða verkefnið út því þá hefði samkeppni myndast og enginn hörgull orðið á sérfræðingum til að sinna verkefninu. Að handvelja einn úr elítunni auðveldar henni að sanka að sér þekkingu og reynslu þar til kemur að tilraun til einkavinavæðingar Landsvirkjunar. Verið er að búa í haginn með þessum auma Berlínarmúr.
Sérleyfisakstur til flugstöðvar Leif Eiríkssonar er sér kapítuli þar sem fjölskylda formanns Sjálfstæðisflokksins kemur við sögu, en ég læt vera að fjalla um það mál að sinni.
Geta til dagblaðaprentunar á Íslandi er komin á eina hönd eftir að prentvélar Fréttablaðsins voru keyptar af sömu aðilum og reka Morgunblaðið. Vélarnar ku vera á leið í brotajárn sem tryggja mun prenteinokun dagblaða á Íslandi. Yfirráð yfir prentvélum er bara einn liður af mörgum í viðhaldi Berlínarmúra landsins.
Króna í stað evru veldur líka skorti og eignaójöfnuði. Elítan vinnur því hiklaust gegn upptöku evrunnar enda er hún mesta ógnin við skortstýringu almúgans.
Nú þegar fylgið hrynur af stjórnarflokkunum þá eygjum við kannski von um breytingar, en þá bregður svo við að Samfylkingin jaðarsetur evruna. Ég tel mistökin geta orðið jafn afdrifarík og ákvörðun Samfylkingarinnar um að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrir fjármálahrunið. Hinn evru flokkurinn, Viðreisn, kemst ekkert upp í fylgi því kúlulánadrottningin neitar að láta af formennsku. Á meðan svona er um hnútana búið hjá stjórnarandstöðunni þá gæti dauðafærið til að fella íslensku Berlínarmúrana runnið út í sandinn.