- Advertisement -

Jackson Hole, úr skoti yfir í langvarandi ástand

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ríkjandi verðbólga er ekki eitthvað sem hægt er að tala niður eða gera lítið úr eins og Bjarni Ben fjármálaráðherra hefur reynt að gera af miklu ábyrgðarleysi.

Allt frá árinu 2020 þá hef ég verið á öndverðum meiði gagnvart því áliti að uppsöfnuð verðbólga undanfarin 3 ár megi rekja til afmarkaðra áhrifa kóvít-19. Helstu Seðlabankar heimsins endurtóku lengi vel þá skýringu að á ferðinni væri verðbólguskot, sem myndi hjaðna tiltölulega hratt á þessu ári vegna hófsamra aðgerða. Sem sagt, að einfaldur kælipoki myndi duga.

Tónninn hefur aftur á móti breyst hratt eins og árlegur ágústfundur helstu Seðlabankastjóra veraldar í Jackson Hole í Wyoming ber glöggt merki um. Í lok fundarins þá talaði Jeremy Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna enga tæpitungu. Sagði að Bandaríkin myndu einhenda sér í að ráða bug á lífseigri verðbólgunni, jafnvel þó það leiddi til kreppu og aukins atvinnuleysis. Skilaboðin voru að markaðsaðilar hefðu ekki tekið viðvaranir Seðlabanka alvarlega hingað til eða þar til um miðjan september. Síðan þá hefur virði verðbréfa tekið dýfu enda ljóst að núllvaxtastefnan er á enda runnin að þessu sinni.

Óvissan er mikil, sem endurspeglast í auknum kaupum á afleiðusamningum (tryggingu) gagnvart áframhaldandi verðlækkunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þar með hafa Seðlabankar loks gengist við þeirri staðreynd að orsakir verðbólgunnar séu margslungnar.

Powell stóð við stóru orðin og hækkaði stýrivexti á miðvikudaginn í þriðja sinn á þremur mánuðum um 0,75 prósentustig. Stýrivextir í Bandaríkjunum eru þar með komnir í 3,25 prósent eins og þeir voru rétt fyrir fjármálahrunið árið 2008. Samkvæmt Powell og fleirum þá má markaðurinn búast við að stýrivextir fari upp undir 5 prósent fyrir árslok og hærra reynist það nauðsynlegt til að koma taumhaldi á verðbólguna. Aðrir stórir seðlabankar hafa fylgt þeim bandaríska eftir þó í minni skrefum. Þar með hafa Seðlabankar loks gengist við þeirri staðreynd að orsakir verðbólgunnar séu margslungnar.

Hraðaaukning vaxtahækkana ber þess glöggt merki að seðlabankar telja verðbólguna ekki lengur vera verðbólguskot heldur langvinnt og þrautseigt ástand. Powell tilkynnti jafnframt að haldið yrði áfram á þeirri braut að draga úr magnbundnum uppkaupum skuldabréfa, en sú aðgerð ýtir enn frekar undir vaxtahækkanir. Tala sumir um að vandamálið megi ekki verða áþekkt því sem var þegar Paul Volcker var seðlabankastjóri í Bandaríkjunum upp úr 1980. Hann skaut þá stýrivöxtum upp í 20 prósent í miðri olíukreppunni.

Sumir gætu spurt sig af hverju þessi þungi er í aðgerðunum þegar neysluverðsvísitalan þar vestra hefur hopað tvo mánuði í röð? Ástæðan er að undirliggjandi verðbólga er víða komin á flug og af því hafa aðilar miklar áhyggjur. Þetta eru auðvitað vond tíðindi fyrir Ísland og má að óbreytti búast við að stýrivextir hér á landi fari hratt í áttina að 10 prósentum, og jafnvel yfir, að óbreyttu. Ríkjandi verðbólga er ekki eitthvað sem hægt er að tala niður eða gera lítið úr eins og Bjarni Ben fjármálaráðherra hefur reynt að gera af miklu ábyrgðarleysi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: