- Advertisement -

Jón Steinar með eftirtektarverða neglu, aftur!

Í dag sitja margir saklausir vítt og breitt um heiminn í fangelsum vegna þessara góðu líkinda sem Stefán talar um.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari og lögmaður er ólatur að skrifa um dómstóla landsins og framferði dómara fyrr og nú. Skrif hans eru margkjarna, málefnaleg, rökstudd og auðskiljanleg. Tvennt er þó eins og rauður þráður í gegnum skrif hans. Það fyrra byggir á Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Í henni segir að dómstólar skuli eingöngu dæma eftir lögum. Hið seinna varðar sönnunarfærsluna, að sanna þurfi sekt eða áorðið tjón með óvéfengjanlegum hætti áður en menn eru sakfelldir eða dæmdir til greiðslu bóta. Með öðrum orðum, menn eru saklausir þar til sekt er sönnuð. Það er því ólöglegt, að dómarar beygi sig fyrir áróðri, tíðaranda, vinatengslum, pólitískum þrýstingi, geðþótta eða eigin hefndarþorsta gagnvart málsaðila. Þannig athæfi er nefnt spilling og kennt við dómaramafíu. Efnislega þá snýst þetta um að allir eiga stjórnarskrárvarinn rétt um vandaða málsmeðferð fyrir hlutlausum dómstól þar sem sönnun skiptir öllu, en ekki þvælulist.

Núna í vikunni þá ritaði Jón Steinar tímabæra áminningu um þetta hjá Stundinni um leið og hann svarar skrifum Stefáns Snævarr prófessors. Sjálfur verð ég að segja að skrif Stefáns eru stórundarleg. Virðast drifin áfram af einhvers konar óbeit á Jóni Steinari og hreinni vanhugsun á málefninu. Á einum stað fullyrðir Stefán orðrétt „Vandinn er sá að það eru ævinlega til fleiri en ein tæk túlkun á öllum lögum“. Mér datt strax í hug umferðarlögin, en í þeim stendur að ekki megi aka yfir á rauðu ljósi. Þetta má víst túlka á marga vegu að mati Stefáns. Ég vona að Stefán sé alveg einsamall um þessa skoðun sína.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Að byggja dóma á líkindum…

Stefáni finnst að sú afstaða Jóns Steinars að gera miklar kröfur um sönnunarfærslu sé bara ein af mörgum nálgunum sem dómarar geta beitt. Í stað öruggra sannana megi dómarar bara dæma á grundvelli góðra líkinda um sekt. Stefán ætti að segja þetta við alla þá sem dæmdir voru í Geirfinnsmálinu á grundvelli líkinda, falskra frásagna og uppdiktaðra sönnunargagna. Hann mætti líka hugsa til allra þeirra sem dæmdir hafa verið saklausir í ævilangt fangelsi í Bandaríkjunum vegna góðra líkinda, lyga og falskra gagna. Síðar, vegna nýrra uppljóstrana og tækniþróunar við greiningu lífsýna, hefur sakleysi sannast. Í dag sitja margir saklausir vítt og breitt um heiminn í fangelsum vegna þessara góðu líkinda sem Stefán talar um. Líkindi sem valda því að hægt er að snúa sönnunarfærslunni á haus þannig að sanna þarf sakleysi. Að byggja dóma á líkindum ýtir undir þvælulist lögmanna og ómálefnalegan málflutning sem leiðir til þess að saklausir fá á sig dóma.

Ég hvet ykkur til að lesa eftirfarandi skrif hér á Miðjunni „Nýr skandall í Landsrétti“, „Landsréttur drullumallar og ræðst á neytendur“, „Óhreinindi Landsréttar“ og „Eru menn fullir upp í Hæstarétti?“. Eftir lesturinn geti þið metið hvort ekki sé full ástæða fyrir lubbamennin og landsréttardómarana Hervöru Þorvaldsdóttur og Aðalstein E. Jónasson að kynna sér skrif Jóns Steinars og meðtaka þau.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: