- Advertisement -

Jón Steinar og Hitler

Líkingamál lögmannsins er aftur á móti ósmekklegt og ófyrirleitið. 

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður ritar einstaklega óábyrga og ósmekklega grein í Mogga dagsins. Telur líkindi vera á milli múgsefjunar Hitlers og baráttu íslenskra sóttvarnaryfirvalda við veiruna. Báðir aðilar eiga víst að stunda þá iðju að notfæra sér ótta almennings til að ná fram tiltekinni afstöðu fólks. Þar fer það sérstaklega fyrir brjóst lögmannsins að skerða þurfi ferðafrelsi þeirra sem mögulega bera veiruna. Jón áttar sig því miður ekki á því að hér er bara ekki um neina hliðstæðu að ræða. Líkingamál lögmannsins er aftur á móti ósmekklegt og ófyrirleitið. Hitler sallaði niður gyðinga og önnur þjóðarbrot í útrás Þjóðverja á meðan þeir sem vinna að sóttvörnum á Íslandi eru að huga að almannaheilsu og vernda líf.

Jón Steinar beinir spjótum sínum sérstaklega að Kára Stefánssyni, sem svo sannarleg hefur verið betri en enginn í baráttunni við kóvít-19 veiruna. Lögmaðurinn ætti í raun að bugta sig í hvert sinn sem hann heyrir vísindamanninn Kára tjá sig um sóttvarnarmál. Svo má Kári víst ekki hafa skoðanir á dómstólum, sem njóta sama og engrar virðingar hjá landanum. Kára má bara ekki verða fótaskortur á tungunni nema hann sé sagður múraður og ruglandi orðhákur. Já, Kári er víst líka kominn á elliár að sögn Jóns eins og að það takmarki eitthvað tjáningarfrelsið hans.

Jón Steinar sleppir alveg að fjalla um hvar frelsi einstaklingsins byrjar og hvar það endar. Telst það frelsi að smitaður fái að smita fjölda fólks bara af því að hann á ekki að þurfa að sæta því að dvelja á lúxus sóttkvíar-hóteli undir ströngu eftirliti. Hann á frekar að vera heima hjá sér þar sem eftirlitið er ekkert og kannski skreppa að spúandi eldstöðvunum. Valsa þar innan um þúsundir manna. Síðan gleymir lögmaðurinn að taka tillit til þess að stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða, þó ekki sé nóg að gert, til að mæta andlegum og efnahagslegum skakkaföllum fólks sem kemur illa út úr því ástandi sem ríkir. Skrif Jóns eru í besta falli misheppnaður útúrsnúningur.      


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: