- Advertisement -

Jürgen Klopp væri búinn að skipta ríkisstjórninni út af

Íslenska myntin er í ruslinu og hafði rýrnað um 19,5 prósent um miðjan mánuðinn.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Myndirnar sem fylgja sýna ólíka þróun Norrænu gjaldmiðlanna á Kóvíd-19 tímum. Sænska krónan er stöðug, hefur styrkst um 0,84 prósent gagnvart evrunni. Sú danska er í sama fasanum og jók eigið verðgildi um 0,4 prósent. Norska krónan er hins vegar meira í áttina við íslensku myntina og hafði tapað 11 prósentum af eigin evru verðmætum um miðjan október. Íslenska myntin er í ruslinu og hafði rýrnað um 19,5 prósent um miðjan mánuðinn. Þegar þessi orð eru skrifuð þá er rýrnunin komin í 20,5 prósent gagnvart evru þrátt fyrir reglubundin inngrip Seðlabanka Íslands á árinu. Rýrnunin hefur því aukist um 5 prósent á aðeins þremur vinnudögum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Stöðugleiki sænsku og dönsku krónunnar endurspeglast í afar lágri verðbólgu, sem var ekki nema 0,6 prósent á fyrstu 9 mánuðum ársins. Á sama tíma var bólgan 3,5 prósent á íslenska krónusvæðinu. Atvinnuleysið var samkvæmt Vinnumálastofnun 9 prósent í september á sama tíma og það var einungis 5 prósent í Danmörku. Í Svíþjóð mældist það 8 prósent. Norðmenn náðu einnig betri árangri en Íslendingar með 1,6 prósent verðbólgu og atvinnuleysi upp á 5 prósent.  

Tvær ástæður skýra slakan árangur Íslendinga. Sú fyrri er að hagkerfin á hinum Norðurlöndunum eru fjölþættari. Hin ástæðan er íslenska krónan og smæð hennar. Sá plagsiður hefur þróast við stjórn landsins að í stað raunverulegra haglausna þá er vandanum sópað undir teppið í gegnum gjaldfellingu krónunnar. Inn í þetta spilar síðan að krónan hefur ekki tiltrú á alþjóðavettvangi. Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin hafa síðan viðhaldið plagsiðnum allt þetta ár. Fórnarlömbin eru íslenskir neytendur, heimili landsins. Ef þetta væri enskur fótbolti þá væri Jürgen Klopp nú þegar búinn að gera veigamiklar breytingar á ríkisstjórninni og forystu Seðlabankans. Hann væri kominn með nýtt lið, sem Þjóðverji veit hann að drukknandi gjaldmiðill er árás á fjárhag heimila og stöðugleika.

Danir völdu að binda eigin krónu við evruna í gegnum samning við Evrópska seðlabankann. Sú sænska er aftur á móti á frjálsum markaði, en sænskt hagkerfi nýtur mikillar virðingar á alþjóða mörkuðum. Sú virðing er áunnin í gegnum farsæla hagstjórn almannahagsmuna yfir áratugaskeið. Menn tala ekki slíka virðingu upp. Hvað evruna varða þá hefur hún aukið styrk sinn um 5 prósent gagnvart bandaríska dollarnum á kóvíd tímum. Það sem hefur mikil áhrif á norsku krónuna eru heimsviðskipti með olíu og má færa fyrir því góð rök að veiking hennar á árinu sé vegna hrunsins á olíumörkuðum á vormánuðum. Aukið jafnvægi hefur verið að komast á viðskipti með olíu og er sú norska á leiðinni að uphafs gildi sínu við byrjun árs.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: