Fréttir

Kalt í skugganum á Vogi

By Miðjan

March 29, 2020

Sú eyðilegging sem lagt var af stað með á Vogi gengur vonandi ekki eftir. Vonandi lætur formaður stjórnarinnar af störfum og vonandi dregur Valgerður Rúnarsdóttir uppsögn sína til baka. Starfið á Vogi er viðkvæmt og má ekki við svona róstum. Valgerður hefur greinilega staðið sig vel í starfi, eins og sjá má í yfirlýsingunni hér að neðan. Aðrir hafa ekki höndlað sitt hlutverk jafnvel. Þeim hefur orðið kalt í skugganum af Valgerði og gripið til eyðileggjandi viðbragða. Sem má ekki. Hér er svo yfirlýsing starfsmanna, starfsmanna sem þrá að Valgerður hætti við að hætta.

YFIRLÝSING STARFSFÓLKS MEÐFERÐARSVIÐS SÁÁ

Við undirrituð starfsfólk meðferðarsviðs SÁÁ lýsum yfir vantrausti á formann og framkvæmdastjórn SÁÁ.

Formaður og framkvæmdastjórn tilkynntu fyrirvaralaust um uppsögn lykilstarfsmanna á meðferðarsviði SÁÁ, þar á meðal yfirsálfræðingi og öllum öðrum starfandi sálfræðingum (utan eins) án samráðs við stjórnendur og fagfólk meðferðarsviðs.

Þessi framkoma formanns og framkvæmdastjórnar SÁÁ gagnvart fagfólki meðferðarsviðs hefur valdið því að nú ríkir algjört vantraust á milli starfsfólks meðferðarsviðs og framkvæmdastjórnar.

Við lýsum yfir fullum stuðningi við Valgerði Rúnarsdóttur yfirlækni og forstjóra sjúkrahússins Vogs sem nú hefur séð sig tilneydda til að segja upp störfum sínum vegna þessara gerræðislegu aðgerða stjórnar sem ekki er hægt að túlka á annan hátt en vantraustsyfirlýsingu á hennar hendur. Valgerður hefur í stafi sínu sýnt að hún er rétta manneskjan til leiða faglega þjónustu og þróun meðferðarstarfs inn í nýja tíma. Framlag Ingunnar Hansdóttir yfirsálfræðings hefur verið ómetanlegt við þróun meðferðar, fræðslu og þjálfun starfsfólks og við mótun framtíðarsýnar meðferðarsviðs. Uppsögn hennar og annarra sálfræðinga er mikið reiðarslag fyrir meðferðarsvið.

Meðferð SÁÁ byggir á faglegum grunni þar sem stuðst er við vísindalega gagnreyndar aðferðir. Meðferðin er veitt af þverfaglegu teymi fagfólks, læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, sálfræðingum og áfengis- og vímuefnaráðgjöfum. Ákvörðun framkvæmdastjórnar og formanns er óafsakanleg og vinnur gegn markmiðum SÁÁ um faglega meðferð við fíknisjúkdómi.

Við lýsum yfir miklum áhyggjum okkar yfir að ófagleg stjórn félagasamtaka geti haft óskorað vald yfir rekstri meðferðarsviðs og ógnað faglegri starfsemi þess með afdrifaríkum sjálfstæðum ákvörðunum án samráðs við ábyrga yfirmenn og fagfólk.

Við förum fram á það að framkvæmdastjórn dragi til baka uppsagnir sálfræðinga og lykilstarfsfólks meðferðarsviðs og að framkvæmdastjórn og formaður stígi umsvifalaust til hliðar og stofnuð verði starfsstjórn þar sem fulltrúar allra meðferðarstétta eigi sæti.

Við förum þess á leit að heilbrigðisráðherra grípi inn í stöðu mála hjá meðferðarsviði SÁÁ með hverjum þeim hætti sem hann telur sér heimilt. Við teljum þetta vera nauðsynlegt svo ekki hljótist varanlegur skaði af núverandi ástandi fyrir starfsemi SÁÁ og þjónustu stofnunarinnar í þágu sjúklinga.