- Advertisement -

Kámug heimsendaspá

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Sjálfstæðisflokkurinn gerist óþjáll og setur upp fýlusvip. Oddvitar flokksins veita viðtöl við hvert tækifæri og milljónamaðurinn kemur í kjölfarið og leggur fram heimsendaspár.

Ef ekki væri fyrir ístöðuleysi Vinstri grænna og Framsóknar þá væri frelsi á Íslandi. Daglegt líf óraskað eins og var í júní. Nú þegar skólar eru að byrja þá bognar forystufólk flokkanna enn og aftur undan yfirgangi Sjálfstæðisflokksins og Samtaka atvinnulífsins. Á ferðinni er kunnuglegt munstur enda ríkisstjórnarsamstarfið þjakað af Stokkhólmsheilkenninu.

Sjálfstæðisflokkur makkar bak við tjöldin með milljónamanninum Halldóri Benjamín Þorbergssyni og línurnar eru lagðar áður en áróðurinn byrjar. Hvor um sig beitir ríkisstjórnina þrýstingi. Sjálfstæðisflokkurinn gerist óþjáll og setur upp fýlusvip. Oddvitar flokksins veita síðan viðtöl við hvert tækifæri og milljónamaðurinn kemur í kjölfarið og leggur fram heimsendaspár.

Fyrir Lífskjarasamninga þá var það vikulegt brauð hjá milljónamanninum að lýsa yfir að eldi og brennisteini myndi rigna yfir alþýðuna ef samið yrði um að lægstu laun dygðu fyrir nauðþurftum. Það gekk ekki eftir. Þegar kóvíd-19 kom þá spáði milljónamaðurinn 18 prósent samdrætti í landsframleiðslu. Það gekk heldur ekki eftir. Minnkunin reyndist ekki nema 6 prósent. Síðastliðið haust þá hafði milljónamaðurinn í hótunum um að rifta Lífskjarasamningum ef tryggingargjaldið yrði ekki lækkað. Annars yrði heimsendir. Bjarni Ben mætti í viðtöl og kynti undir. Katrín og Sigurður Ingi bognuðu. Í vor þá var uppteknum hætti haldið áfram og þess krafist að allar sóttvarnir á landamærum yrðu aflagðar. Að baki var flunkuný heimsendaspá. Vinstri græn og Framsókn gáfu eftir að venju.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Deltaveiran tók varnarleysinu fagnandi og kom sér fyrir í öllum landshornum. Ófrelsi komst aftur á. Núna  er sami söngurinn byrjaður og milljónaguttinn kominn með gljáandi hrakspá. Krafist er vægari sóttvarna þrátt fyrir vonda reynslu af slíku. Bjarni og Áslaug Arna mæta í viðtöl og skrifa sauðheimskar greinar. Nýjasta útspil guttans er síðan grein á Vísi þar sem ráðist er að íslenskum læknum og vísindamönnum. Þeir sagðir sjálfumglaðir grobbarar úr tengslum við umheiminn. Vinstri græn og Framsókn halda í hefðina og gefa eftir. Bara til að það þurfi að grípa aftur inn í fljótlega með enn harðari sóttvörnum en eru í gildi í dag. Þá þarf Halldór Benjamín að fægja heimsendaspánna enda kámug af ofnotkun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: