- Advertisement -

Katrín Jak hefur rangt fyrir sér

Meðal kaupenda voru fjölskyldumeðlimir fjármálaráðherra.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Vegna efnahagslegrar óvissu sem uppi er vegna veirunnar þá er mikilvægt að kynda ekki undir aukna óvissu með því að hringla með eignarhald Íslandsbanka. Sala við núverandi aðstæður eykur ókyrrð á fjármálamarkaði og heildaráhættu hagkerfisins. Það er þó fleira sem mælir gegn sölunni við núverandi aðstæður og vil ég nefna eitt atriði umfram önnur.

Snemma á síðasta ári þá settu bankar um allan heim aukna fjármuni til hliðar til að mæta vexti í útlánatöpum á veirutímum. Um er að ræða varúðarniðurfærslur. Stærsti einkabanki heims JP Morgan Chase byrjaði strax að bakfæra hluta af sínum varúðarfærslum þegar góðar fréttir af bóluefnum fóru að berast undir lok síðasta árs. Þetta ásamt öðru leiddi til þess að síðasti ársfjórðungur reyndist vera sá besti í sögu bankans. Jókst hagnaður um 42,5 prósent frá sama tíma árið á undan og velta jókst um 3 prósent. Með aukinni bjartsýni þá beið bankinn ekki með að hefja bakfærslur. Það er í anda þess sjónarmiðs að birta raunhæf og gagnsæ reikningsskil hverju sinni. Þegar þessi orð eru skrifuð þá hefur hlutabréfaverð í bankanum hækkað um 3 prósent og var það hátt fyrir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Til eru staðfest dæmi um þannig uppáskriftir.

Nú er það svo að þegar kemur að bakfærslum sem hér um ræðir þá hafa stjórnir og lykil stjórnendur nokkuð ráðrúm varðandi tímasetningar á bakfærslum þrátt fyrir sjónarmiðið um að bíða ekki með að bókfæra mikilvæga bókhaldsliði. Reikningsskilastaðlar geyma nefnilega ekki nákvæmar reglur um tímasetningar vegna þess að aðilar geta haft ólíka sýn á stöðu mála. Því geta óprútnir beðið með bakfærslur lengur en eðlilegt getur talist. JP Morgan Chase metur það svo að fréttir af bóluefnum og bólusetningum réttlæti að hefja bakfærslur með myndarlegum hætti strax. Töf á bakfærslum hefur bein áhrif á verð hlutabréfa banka og getur munað háum fjárhæðum eftir því hver tímasetningin er. Við bætist að í fjármálahruninu sýndi það sig að sumir löggiltir endurskoðendur skrifuðu upp á skrautlega ársreikninga í blekkingarskyni. Til eru staðfest dæmi um þannig uppáskriftir.

Í vikunni þá upplýsti Landsbankinn að hlutfall lána í vanskilum hjá stóru bönkunum hafi verið 9 prósent í október síðastliðnum og hafi ekki verið hærra síðan árið 2013. Landsbankinn upplýsti jafnframt að virðisrýrnun útlána bankans hafi numið tæplega 14 milljörðum á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Hinir bankarnir munu hafa verið með heldur minni varúðarráðstafanir, en heilt yfir þá eru þetta háar fjárhæðir eða samtals 31 milljarður króna miðað við október síðastliðinn. Þá vaknar spurningin hvenær bankarnir hefja sínar bakfærslur eða munu þeir auka við varúðina ólíkt JP Morgan. Þetta er áríðandi spurning því svarið mun hafa bein áhrif á verðmyndun hlutabréfa í Íslandsbanka. Að bíða með bakfærslur í 6-24 mánuði mun hafa merkjanleg áhrif á söluverð hlutabréfa í bankanum. Munað getur háum fjárhæðum sem útvaldir kaupendur geta stungið í eigin vasa. Í ljósi þessa þá er hyggilegt að bíða með alla einkavæðingu þar til meiri efnahagsvissa kemst á ef stíga á þetta umdeilda skref á annað borð. Annars gæti þjóðin verið hlunnfarin. Það gerðist þegar Landsbankinn seldi eign sína í vísa  kortafyrirtækinu á undirverði upp á marga milljarða króna fyrir fáeinum árum. Þá vantaði að færa mikilvæga liði til bókar. Meðal kaupenda voru fjölskyldumeðlimir fjármálaráðherra.

Forsætisráðherra Katrín Jak hefur rangt fyrir sér þegar hún segir að nú sé eins góður tími til sölu á hlut í Íslandsbanka eins og hver annar. Tímasetning skiptir afar miklu máli og ber að hámarka söluandvirðið fyrir hönd þjóðarinnar. Markmiðið getur ekki verið að aðstoða Katrínu að skora einhver pólitísk stig í þjónkun við einkavæðingar flokkinn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: