
Þannig að ráðgjöfin kemur öll innan úr kerfinu, sem ég tel vera alvarlegan ágalla.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Aðspurð á Alþingi upplýsti forsætisráðherra að ríkisstjórnin fengi sína efnahagsráðgjöf frá fjármálaráðuneytinu og Hagstofu Íslands. Þannig að ráðgjöfin kemur öll innan úr kerfinu, sem ég tel vera alvarlegan ágalla. Alveg sérstaklega við þær aðstæður sem uppi eru í heiminum. Byggja þarf ákvarðanir á meiri víðsýni.
Aðeins einn ráðherra hefur einhverja hagfræði- eða viðskiptamenntun og reynslu á því sviði. Lilja Alfreðsdóttir er stjórnmálafræðingur að upplagi og stundaði síðan skemmra-nám í alþjóðaviðskiptum eða alþjóðahagfræði samhliða heimspekinámi. Aðrir ráðherrar eru með menntun sem liggur langt frá hagfræði og hagrannsóknum. Sjálfstæðisráðherrarnir eru með menntun á sviði lögfræði, stjórnmálafræði og kennslu. Konurnar tvær í Vinstri grænum eru með menntun í bókmenntum og málvísindum. Umhverfisráðherra er líffræðingur og umhverfisfræðingur. Síðan er einn dýrafræðingur um borð. Samantekið þá búa ráðherrarnir yfir afskaplega takmarkaðri þekkingu á gangverki hagkerfa og reiða sig því á haggreiningar sem unnar eru innan stjórnsýslunnar. Þeim skortir færni til að geta metið sjálfstætt í gegnum eigin greiningarhæfni þá ráðgjöf sem lögð er á borð þeirra. Þau eru í raun öll þiggjendur ráðgjafar innan úr kerfinu. Það er helst Lilja sem getur hugsanlega eitthvað beitt sér. Þingflokkar ríkisstjórnarinnar eru ekki betur settir.
Hann mun fara vaxandi þegar líður á haustið vegna rangra ákvarðana ríkisstjórnarinnar
Mjög æskilegt er að ríkisstjórnin sæki sér utanaðkomandi ráðgjöf við haggreininguna til að forðast einsleitni. Miðað við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til í veirufaraldrinum þá byggja þær á úreltri nálgun um að verja framboðshlið hagkerfisins, en vandinn liggur bara ekki þar. Framleiðsluþættir hagkerfisins eru í góðu standi og það er offramboð af ferðaþjónustu. Ísland eins og önnur lönd er að glíma við bráðavanda á eftirspurnarhliðinni. Hann mun fara vaxandi þegar líður á haustið vegna rangra ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Nútíma hagstjórn miðast við stýringu eftirspurnarinnar, en ekki framleiðsluþáttanna. Snoturt dæmi um það eru aðgerðir í átt að grænna hagkerfi.
Bandarísk stjórnvöld hafa gengið lengra en þau íslensku í að takast á við bráðavanda eftirspurnarinnar og sent neytendum 1.200 dollara án kröfu um vinnuframlag á móti. Meira er á leiðinni í þessa veruna. Stjórnvöld vestra vilja að neytendur verði tilbúnir að fara út að versla um leið og útitakmörkunum verður létt. Þegar svingið verður komið þá taka stjórnvöld langtíma ákvarðanir varðandi atvinnu og þess háttar. Núna er einfaldlega ekki tími til að skipuleggja þung verkefni sem koma til með að hafa áhrif eftir svo og svo langan tíma. Bandaríkjamenn átta sig á því betur en aðrir að aðgerðirnar verði að virka samdægurs. Öðruvísi verður niðurveifluspíralnum ekki snúið við. Spírall sem getur varað í langan tíma.
Fleiri þjóðir hafa tekið gagnlegar ákvarðanir til að örva eftirspurn neytenda. Malta sem dæmi hefur hækkað atvinnuleysisbætur per einstakling, aukið húsaleigubætur til atvinnulausra, aukið stuðning við öryrkja og fatlaða og aukið stuðning við þá sem ekki eru í aðstöðu til að vinna að heiman svo fátt eitt sé nefnt. Allar þessar aðgerðir flokkast innan þeirra hugmyndar að taka upp borgaralaun sem eru umtalsvert hærri en atvinnuleysisbætur. Aðgerðirnar auka kaupmátt neytenda sem fara á atvinnuleysiskrá.
…og félagsmálaráðherra sendir nemendum fingurinn.
Nýja Sjáland hefur tekið stórt skref til frambúðar til að auka greiðslur úr samtryggingarkerfinu og mælist skrefið vera 0,8% af landsframleiðslu. Finnar hafa einnig aukið greiðslur úr samtryggingarkerfinu eða um 480 milljarða króna, sem er 1,5 prósent af landsframleiðslu. Allar þessar aðgerðir eru eftirspurnarhvetjandi!
Ég skoðaði þessi fjögur lönd nánast af handahófi, þau eru miklu fleiri. Löndunum fjölgar ört sem eru í auknu mæli að horfa til eftirspurnarhliðar hagkerfisins. Á meðan sitja íslensk stjórnvöld föst á framboðshliðinni og félagsmálaráðherra sendir nemendum fingurinn.
Allar aðgerðir seðlabanka heimsins eru eftirspurnarhvetjandi aðgerðir með beinum og óbeinum hætti, en virkni þeirra getur verið hæg. Þess vegna eru stjórnvöld að horfa til aðgerða sem beinast að neytendum og virka strax. Í þessum anda eru borgaralaun sem ég hef ítrekað hvatt til og bendi sérstaklega á þessa grein hér „Þetta kom sjálfum mér á óvart!“.