- Advertisement -

Katrín og Ásmundur Daði með kosningabrellu

Atvinnulausum er til dæmis hiklaust mismunað í efnahagslegu tilliti að ýmsu leyti.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mikill munur á atvinnuleysi í Bandaríkjunum og á Íslandi endurspeglar viljamun ríkisstjórna landanna til að takast á við atvinnuleysið út frá almannahagsmunum. Á með bandarísk stjórnvöld eru með stórfenglegar aðgerðir á eftirspurnarhlið hagkerfisins þá eru þau íslensku meira að verja hlutabréfaeign vildarvina Sjálfstæðisflokksins í ferðaþjónustunni. Þar inn í teljast fyrirtæki tengd fjölskyldu fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og aðaleiganda Fréttablaðsins, Helga Magnússonar.

Nú er þriðji félagslegi örvunarpakki Bandaríkjanna í veirufaraldrinum kominn í gang og er hann jafnframt sá stærsti í nútíma hagsögu vesturlanda. Bandarískir valdhafar viðurkenna að efnahagshöggið í faraldrinum dreifist ójafnt milli landsmanna. Lágtekju- og millitekjuhópar hafa orðið verst úti og litarháttur hefur einnig haft áhrif á örlög fólks. Aðgerðunum er því ætlað að jafna afleiðingarnar með sanngjörnum og myndarlegum aðgerðum á eftirspurnarhliðinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar maður rýnir atvinnuleysistölur þar vestra þá sést að á meðan atvinnuleysi meðal hvítra er 5,7 prósent þá er atvinnuleysið 9,2 prósent hjá svertingjum og 8,6 prósent hjá latnesku fólki. Sambærilega sögu er að segja um börn sem lyft verður upp úr sára fátækt með þriðja pakkanum. Þau eru að uppistöðu svört, latneskt eða af asískum uppruna. Aðgerðirnar snúa því einnig að kynþáttabundnum afleiðingum veirunnar. Síðan er búið að gera breytingar á skattalögum sem snúa að barnlausum einstaklingum. Þessi hópur hefur í gegnum tíðina verið afgangsstærð, eins og á Íslandi, en ekki lengur í Bandaríkjunum.

Þriðji aðgerðarpakkinn gengur út á að allir undir ákveðnum ráðstöfunartekjum fái myndarlegan framfærslustuðning næstu sex mánuðina. Þar á meðal eru allir á atvinnuleysisskrá, eldri borgarar, öryrkjar, fatlaðir og þeir sem af óútskýrðum ástæðum eru utan kerfis. Aðgerðir ríkisstjórnar Íslands eru í hróplegu ósamræmi við bandarísku leiðina. Atvinnulausum er til dæmis hiklaust mismunað í efnahagslegu tilliti að ýmsu leyti. Þar má til dæmis nefna að þeir sem hafa verið lengur en fáeina mánuði á atvinnuleysisskrá fá strípuð atvinnuleysislaun á sama tíma og hlutabótafólkið fær stærstan hluta launa sinna eins og þau voru fyrir faraldurinn. Munar hér hundruðum þúsunda króna á mánuði. Þannig að ekki eru allir Jónar jafnir.

Fjárhæðin er smánarleg og örvæntingarfull kosningabrella.

Nýi stuðningspakki Bandaríkjastjórnar inniheldur meðal annars eingreiðslu upp á 180 þúsund krónur og hækkun atvinnuleysisbóta um 155 þúsund krónur á mánuði. Greiðslurnar eru skattfrjálsar að 1,3 milljónum króna. Síðan fá foreldrar 464 þúsund krónur á árinu með hverju barni undir 6 ára aldri og 387 þúsund krónur með hverju barni á aldursbilinu 6-17 ára. Samkvæmt yfirlýsingu demókrata þá er vilji til að barnameðlögin verði fest í sessi enda mun það fækka börnum sem alast upp í sára fátækt.

Aðgerðir bandarískra stjórnvalda eru til eftirbreytni enda skila þær sér hratt í minnkandi atvinnuleysi. Það er því tímabært að íslensk stjórnvöld hætti að framfylgja efnahagsstefnu Samtaka atvinnulífsins sem gerir ekkert annað en að framleiða atvinnuleysi, verðbólgu og flytja inn veiruna. Að henda 5-7 milljörðum í illa skilgreint atvinnuátak eins og Katrín Jak og Ásmundur Daði tilkynntu um á dögunum mun ekki breyta heildarmyndinni. Fjárhæðin er smánarleg og örvæntingarfull kosningabrella. Sú spurning er áleitin af hverju þessir peningar voru ekki settir í atvinnuátak á síðasta ári þegar peningarnir voru víst til staðar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: