
Jóhann Þorvarðarson skrifar:
Inngrip á gjaldeyrismarkað til að halda krónunni niðri hleypur á hundruðum milljarða króna. Afleiðingin er að verðbólga undanfarin misseri er niðurbæld og mun birtast okkur síðar.

Hinn ágæti Jónas Atli Gunnarsson hjá fjölmiðlafyrirtækinu Kjarninn var með bærilega grein „Svipaðar verðhækkanir hér og í nágrannalöndum“. Þar sem hann ber saman verðbólgu á Íslandi og annars staðar. Tvennt vantaði í greinina til að standa undir tilgangi Kjarnans, sem er að leggja áherslu á vitræna umræðu eins og segir á heimasíðu miðilsins.
Það fyrra er að Seðlabanki Íslands hefur haldið uppi fölsku gengi á íslensku krónunni með ríkulegri notkun á öryggisforða landsins. Inngrip á gjaldeyrismarkað til að halda krónunni niðri hleypur á hundruðum milljarða króna. Afleiðingin er að verðbólga undanfarin misseri er niðurbæld og mun birtast okkur síðar því markaðurinn hefur alltaf vinninginn og leiðréttir sig. Þetta skekkir allan samanburð við lönd sem láta gengi sinna gjaldmiðla ákvarðast á markaði.
Það er aðalatriðið.
Hitt atriðið hefur með línuritið að gera sem Jónas Atli birti með grein sinni þar sem hann ber þróun bólgunnar hér á landi við gang mála hjá OECD löndum. Miðjan endurbirtir hér línurnar. Jónasi Atla þykir mikilvægt að hafa orð á því að verðbólgan hér og innan OECD sé orðin jöfn. Þetta er ófullkomin umfjöllun. Þegar maður skoðar tímaferla, eins og myndin gerir, þá verður einnig að hafa orð á því að bólgan hér er svo til alltaf hærri að miklum mun á umræddu tímabili. Þetta hefur meira margfeldis áhrif inn í íslenskt verðlag en hjá öðrum löndum. Að hafa alltaf hærri verðbólgu yfir langan tíma dregur samkeppnishæfni landsins niður. Það er aðalatriðið. Þetta er svona eins og að bera saman ljósmynd og kvikmynd.