- Advertisement -

Klofspark oflátunga

Þau borga nú eigendum sínum arð á sama tíma og ríkið niðurgreiddi laun fyrirtækjanna.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Að undanförnu hafa ýmsir framverðir sérhagsmuna ráðist að atvinnulausum með svívirðingum. Á ferðinni eru menn sem hafa haft það sem atvinnu síðasta árið að betla gjafafé úr ríkissjóði til fyrirtækja sem sum hver hafa enga þörf fyrir ríkisstyrk. Upp í hugann kemur strax fyrirtækin Toyota og Húsasmiðjan sem voru rekin með myndarlegum hagnaði á síðasta ári. Þau borga nú eigendum sínum arð á sama tíma og ríkið niðurgreiddi laun fyrirtækjanna. Bláa lónið kemur einnig upp í hugann og mörg fleiri.

Einn af þessum mönnum er Jóhannes Þór Skúlason sem sagt hefur að taka verði fast á atvinnulausum sem ekki þiggja atvinnu á því andartaki sem haft er samband. Honum er alveg sama hverjar ástæðurnar geti verið að fólk geti ekki stokkið til og jafnvel flutt búferlum milli landshluta. Annar er Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar, sem sagði atvinnuleysislaun of há, letji fólk til starfa. Fyrirtæki Steingríms er eitt þeirra fyrirtækja sem þegið hefur gjafafé úr ríkissjóði. Svo er dæmi um Íslending sem flúði íslensk kjör til að búa í velferðarríkinu Danmörku. Hann setti eftirfarandi ósóma fram á Fésbókinni „Það er ekkert atvinnuleysi á Íslandi, þó að hópur bótaþega reyni að hanga lengur á bótunum“. Orðin endurspegla fávisku.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Almennt séð þá vill fólk vinna og lætur myndarleg atvinnuleysislaun ekki letja sig. Skýrasta dæmið kemur frá Bandaríkjunum, sem hækkaði atvinnuleysislaun myndarlega. Fyrst um 325 þúsund krónur á mánuði og síðan um 225 þúsund krónur á mánuði. Hinir sömu fengu í tvígang eingreiðslu upp á um 140 þúsund krónur. Myndin sem fylgir sýnir að atvinnuleysi hefur lækkað hratt úr 14,7 prósentum og niður í 5,8 prósent þar vestra vegna aðgerða stjórnvalda á eftirspurnarhlið hagkerfisins.

Sem betur fer þá eru þeir fáir sem tala með þeim hætti sem lýst er. Samkvæmt OECD þá eru Bandaríkin það land sem mun endurheimta efnahagsstyrk sinn fyrst allra vestrænna þjóða á sama tíma og Ísland fær falleinkunn. Þökk sé viðhorfum niðurrifsmanna sem minnst er á að ofan.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: