- Advertisement -

Kolbeinn Óttarsson Proppé er aftengdur

Það var fyrsta endemis vitleysan enda borgaralaun hugsuð eingöngu fyrir þá sem eru án atvinnu.

Jóhann Þorvarðarson  skrifar:

Það var dapurlegt að hlusta á þingmann Vinstri grænna hann Kolbein Óttarsson Proppé í Silfri helgarinnar. Hann er ekki með á nótunum og kom óundirbúinn til umræðna. Það var  augljóst. Óboðlegt er með öllu að þingmaður sem þiggur ellefu hundruð þúsund krónur í laun á mánuði auk 140 þúsund krónur í mánaðarlegar kostnaðargreiðslur sinni ekki starfi sínu betur en þetta. Þetta er köld tuska framan í nemendur sem sjá fram á sólarlaust sumar og alla þá 30 þúsund neytendur sem nú þegar eru komnir á atvinnuleysisskrá. Þingmaðurinn var yfirlætið uppmálað og minnti mig á nakta keisarann.

Þegar kom að tali um borgaralaun þá ætlaði ég vart að trúa vitleysunni sem vall upp úr þingmanninum. Það var hreint ótrúlegt að hlusta á hann. Og hvað sagði hann um borgaralaun? Jú, hann gefur sér að allir yfir 18 ára aldri fari á borgaralaun, líka þeir sem hafa atvinnu. Það var fyrsta endemis vitleysan enda borgaralaun hugsuð eingöngu fyrir þá sem eru án atvinnu. Næst komu hreint skelfilegir útreikningar. Hann tók 280 þúsund manns og gaf sér að þau færu á 300 þúsund króna borgaralaun og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væru áttatíu milljarðar á mánuði og þúsund milljarðar á ári.

Betra hefði verið ef hann hefði bara þagað og alls ekki reiknað einhverja vitleysu út.

Gera verður alvarlegar athugasemdir við þessa hlægilegu útreikninga. Fyrir það fyrsta þá er eingöngu verið að tala um að þeir sem eru án atvinnu fari á borgaralaun. Þegar þessi orð eru skrifuð þá eru þetta 30 þúsund manns miðað við fullt starf. Svo vantar ýmislegt annað inn í þessa útreikninga hjá þingmanninum eins og til dæmis það að greiða þarf tekjuskatta af borgaralaunum. Og síðan þarf að reikna áhrif veltuskatta á dæmið. Og hagræðið að fólk er skemmri tíma á atvinnuleysiskrá ef borgaralaun eru greidd. Og svo vantar honum að meta hagræðið af því að minna álag verður á innviði heilbrigðiskerfisins ef fólk er skemur á skrá en ella. Og svo þarf að reikna haginn af því að fólk fái vinnu og svona telur þetta áfram. Þetta eru ekki einfaldir útreikningar eins og þingmaður heldur. Betra hefði verið ef hann hefði bara þagað og alls ekki reiknað einhverja vitleysu út. Kolbeinn kom illa út úr þættinum. Get ég ekki annað en hvatt þingmanninn til að sinna vinnu sinni betur í stað þess að raupa. Og endilega sleppa því alveg að reikna dæmi sem eru eingöngu fyrir fullorðna!

Ég hef sjálfur reiknað dæmið til enda og komist að þeirri niðurstöðu að átaksverkefni um borgaralaun til tveggja ára muni skila hagnaði á sjötta ári upp á 1,7 milljarða. Í mínum útreikningum þá miða ég við borgaralaun upp á 450 þúsund krónur á mánuði í tvö ár. Ég skora á þingmanninn að lesa eftirfarandi grein eftir mig hér á Miðjunni „Þetta kom sjálfum mér á óvart!“. Sú grein ætti að vekja þingmanninn til umhugsunar. Minni kröfur er ekki hægt að gera til hans fyrir hans himinháu laun.

Grundvöllur afstöðu þingmannsins til borgaralauna er augljóslega þekkingarleysi og fordómur! Ofangreind grein mín hjálpar honum að losna við hvoru tveggja. Hann þarf ekkert að þakka fyrir sig þó opið sé hjá mér fyrir þakkarskeyti alla þriðjudaga.
Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: