- Advertisement -

Kólguský hrannast upp

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Er nú svo komið að kínversk stjórnvöld hafa stigið inn og taka beinan þátt í daglegri stjórn fyrirtækisins.

Verðbólga í Þýskalandi er komin í 6 prósent, sem er 0,6 prósentustigum umfram væntingar. Aukning ársbólgunnar frá fyrra mánuði er hvorki meiri né minna en 1,5 prósentustig. Síðar í dag þá koma nýjar verðbólgutölur út í Bandaríkjunum og gera markaðsaðilar ráð fyrir að ársverðbólga fari jafnvel í 6,8 prósent. Hefur hún þá ekki verið hærri í fjóra áratugi. Efnahagsbatinn á Bretlandseyjum mætir mótvindi og jókst landsframleiðslan í október ekki nema um 0,1 prósent á sama tíma og væntingar voru um 0,4 prósent vöxt. Það er holóttur vegur fram undan í efnahagsmálum beggja vegna við okkur.

Allt þetta setur aukinn þrýsting á seðlabanka um að setja kælikerfin á aukinn snúning. Bætist þetta ofan á hægari gang kínverska hagkerfisins og 8 prósent sterkara gengis þarlends gjaldmiðils síðan í upphafi árs. Sveiflur á hlutabréfamörkuðum hafi aukist undanfarnar vikur og getur slíkt óróamerki verið undanfari snarprar niðursveiflu á hlutabréfamarkaði.

Í þessu samhengi má benda á að hið risavaxna kínverska fasteignafélag Evergrande gat ekki staðið skil á vaxtagreiðslum fyrir mánuði síðan, en fasteignamarkaðurinn og tengdar greinar telja um 30 prósent af kínverska hagkerfinu. Fyrirtækið var nýlega sett í ruslflokk af hjá einkunnarfyrirtækinu Fitch Rating. Er nú svo komið að kínversk stjórnvöld hafa stigið inn og taka beinan þátt í daglegri stjórn fyrirtækisins. Það er tilraun til að setja girðingar utan um rekstur þess svo afleidd áhrif af mögulegu falli þess verði sem minnst. Aðkoman gæti verið undanfari yfirtöku ríksins á Evergrande. Fleiri kínversk fyrirtæki eru í vanda. Það sem gerist í Kína hefur áhrif á alla veröldina.      

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: