- Advertisement -

Kristján Þór og Rannsóknarnefnd Alþingis

Kristján Þór hitti þrjá mútuþæga erindreka frá Namibíu á skrifstofu Samherja.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Vitað er að Kristján Þór hitti þrjá mútuþæga erindreka frá Namibíu á skrifstofu Samherja. Einnig liggur fyrir að Kristján Þór er náinn vinur Þorsteins Más forstjóra Samherja og annarra lykilstjórnenda fyrirtækisins. Og það liggur einnig fyrir að eitt af fyrstu verkum ráðherrans eftir opinberun Samherja-Namibíu málsins var að hringja í Þorstein Má og aðra stjórnednur og spurja um líðan þeirra. Svo samansúrraður er ráðherrann þessu fyrirtæki að allt annað vék. Það liggur einnig fyrir að ráðherrann er tvísaga í málinu um hvernig það atvikaðist að hann átti fund með hinum mútuþægu erindrekum frá Namibíu.

Kristján Þór sagði í Kastljósi 13. nóvember að hann ætli ekki að víkja á meðan málefni Samherja eru til rannsóknar. Ágætt er að setja þessa afstöðu ráðherrans í samhengi við varnaðarorð í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis vegna fall bankanna 2008:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Allt frá dögum Platons hafa stjórnspekingar varað við að hugsunarháttur og markmið viðskiptalífsins verði ráðandi þegar ákvarðanir eru teknar um almannahagsmuni. Lögð hefur verið áhersla á að skýr verkaskipting ríki milli viðskiptalífs og ríkisvaldsins. Því hefur verið haldið fram að í raun þurfi viðskiptalífið stíft aðhald frá ríkisvaldinu bæði til að búa því lagaramma og skýrt eftirlit og eins með því að skilgreina stöðu viðskiptalífsins þannig að það flæði ekki yfir allt samfélagið.    …………..  

Eitt af markmiðum einkavæðingar er að færa völd frá stjórnmálamönnum til einkaaðila. Með einkavæðingu banka, sjóða og margra fyrirtækja á síðasta áratug dró ríkisvaldið sig út úr margvíslegri starfsemi og völd stjórnmálamanna minnkuðu að sama skapi. Á sama tíma og ríkisvaldið veiktist sóttist viðskiptalífið æ meir eftir afskiptum af stefnumótun og lagasetningu sem um það er sett. Eins og víða hefur gerst beittu fyrirtæki hagsmunasamtökum til að hafa afskipti af reglusetningu og lagasetningu. Hættan er sú að þetta lami jafnframt lýðræðislegt ákvörðunarferli. Þegar þannig er komið verða mörkin milli viðskiptalífsins og stjórnmála verulega óskýr. Hagsmunaaðilar taka ákvarðanir í stað stjórnvalda sem aftur kemur í veg fyrir lýðræðislega umræðu um efnið.  

……….Hérlendis reyndu tvö hagsmunasamtök viðskiptalífsins, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu og þá umgjörð sem fjármálafyrirtækjum var búin. Ekki er hægt að segja annað en að þeim hafi orðið vel ágengt. Þau lögðu áherslu á að lagaumgjörð viðskiptalífsins væri ekki mjög íþyngjandi, stjórnsýslan væri einföld og skattar lækkaðir.“ ……….

Ein forsenda þess að samkeppni virki er að fyrirtæki stundi heiðarlega viðskiptahætti og ein tryggasta leiðin til þess er að halda uppi öflugu eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja. Í sömu stefnuyfirlýsingu er sleginn afdrifaríkur tónn um að „óþarfa laga- og reglugerðarákvæði“ verði afnumin og eftirlitsaðilar íþyngi ekki fyrirtækjum. Þessi tónn endurómar í yfirlýsingunni 2003 þar sem varað er við því að starfsemi eftirlitsstofnana verði óþarflega íþyngjandi fyrir fjármagnsfyrirtækin. Þó er nánast óhjákvæmilegt annað en að öflugt eftirlit með fjármálafyrirtækjum virki íþyngjandi og með þessum orðum styðja stjórnvöld frjálsræði fyrirtækjanna og grafa þar með undan sjálfstæði eftirlitsaðilanna sem þau segja í sömu andrá að eigi að vera ótvírætt“.

Það varðar grunnstoðir lýðræðisins, almannahagsmuni og trúverðugleika stjórnsýslunnar að Kristján Þór víki sem ráðherra á meðan rannsókn á málefnum Samherja fara fram! Farsælast er að hann víki einnig af þingi því þannig tryggjum við að sérhagsmunir séu ekki að þvælast fyrir almannahagsmunum í þessu máli. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er hér milliríkjamál á ferðinni þar sem alþjóðastofnanir fylgjast grant með. Þarf nokkuð að bæta við þann ósóma að Ísland er skráð peningaþvottastöð og uppi er grunur um að Samherji eigi þar hlut að máli samanber skjölin sem lekið hefur verið.

 Ef Kristjáni Þór þykir vænt um Ísland þá sér hann sóma sinn í því að víkja. Það sem eftir er af orðspori landsins er í húfi!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: