- Advertisement -

Krónískur fordómur fjármálaráðherra

Þetta er gatslitið og lúið svar enda hefur hann notast við svarið allt frá árinu 2013.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Silfurskeiðungurinn Bjarni Ben fjármálaráðherra hefur opinberað eigin fordóm gagnvart fátækt í ræðustól Alþingis oftar en ég nenni að telja. Í hliðarsölum er jafnan klappstýran Óli Björn Kárason sem hefur jafn mikinn fordóm gagnvart fátækt, jafnvel meiri. Fordómur silfurskeiðungsins er að sumu leyti skiljanlegur vitandi að hann hefur aldrei dýft hönd í saltan sjó. Ég veit aftur á móti ekki hvaðan Óli Björn fékk sína vitleysu, en hann upplýsir kannski þjóðina um það við tækifæri.

Í nýlegri umræðu á Alþingi snéri silfurskeiðungurinn enn og aftur upp á sig. Sagði ekki auðséð að aðstæður fátækra hefðu breyst við veirufaraldurinn. Þetta er akkúrat kjarninn í fordómnum. Hann sér ekki fátæktina eða aðstæður fátækra enda veit hann ekki hvernig fátækt lítur út. Hún er ekki augljós fyrir honum þó hún sjáist daglega við styttur bæjarins.

Framkoma silfurskeiðungsins er mjög særandi.

Síðasta mánudag benti Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður á þá staðreynd að margir fátækir hafi þurft að lifa lengi á 221.000 krónum á mánuði. Það merkir að fátækir þurfa að neita sér um staðgóð næringarefni sem síðan setur mark á heilsu fátæklinga sagði þingmaðurinn. Silfurskeiðungurinn steig í ræðustól og svaraði með útúrsnúningi eins og honum er tamt. Hóf að tala um einstæða 35 ára konu sem er öryrki og með tvö börn. Sagði síðan að með barnameðlagi hefði þessi kona það svipað og þeir sem hefðu nýlega skrifað undir kjarasamninga. 

Ég ákvað að skoða hvað þessi kona er með í ráðstöfunartekjur og komst að því að upphæðin er 408.660 krónur fyrir sig og börnin tvö. Þetta finnst Silfurskeiðungnum vel í lagt. Sjálfur fær hann 1,4 milljónir í launaumslagið fyrir sín pólitísku störf fyrir utan ýmis hlunnindi og kostnaðargreiðslur. Málið er bara að Guðmundur Ingi  var ekki að tala um þessa konu heldur alla sem hafa miklu minna úr að spila.

Ég athugaði því stöðuna hjá 35 ára einstæðri konu sem er öryrki, býr ein og er barnlaus. Hún er með 266.400 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði. Ef hún er heppin þá fær hún leiguíbúð á 150.000 krónur á mánuði. Eftir standa 116.400 krónur til að greiða fyrir aðra framfærslu. Ef ein tönn skemmist þá fer fjárhagurinn í klessu. Silfurskeiðungurinn var ekki að eyða mörgum orðum í þessa ungu konu. Hann sagði þó þetta „Hins vegar eru til einstaklingar sem skrapa botninn og er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af“.

Þetta er gatslitið og lúið svar enda hefur hann notast við svarið allt frá árinu 2013. Lítið hefur breyst enda meint samkennd fölsk. Sést í gegnum hana eins og hverja aðra glæru. Framkoma silfurskeiðungsins er mjög særandi fyrir okkur sem þjóð og ekki hægt að horfa upp á hana lengur. Við þurfum nýja forystu í fjármálaráðuneytið og nýja nálgun á úrlausnarefnin. Fordómur silfurskeiðungsins er hans persónulega vandamál sem ekki á að bitna á þjóðinni.

Í ljósi þess að hann skilur ekki áhyggjur þingmannsins þá er ágætt að rifja upp að í Bandaríkjunum þá lifir karlmaður sem tilheyrir ríkasta tekjulaginu 15 árum lengur en sá sem er í fátækasta laginu. Konan lifir 10 árum lengur. Þetta er ekki bundið bara við Bandaríkin.

Silfurskeiðungurinn ku víst sofa vel á nóttunni á meðan ógæfufólki við stytturnar endurnýjast hratt!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: