- Advertisement -

Kúadella sem kostaði tugir milljarða króna

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mér segir svo hugur að Katrín Jak og Vinstri græn muni halda áfram að vernda hinn spillta fjármálaráðherra og það sama má segja um Framsókn.

Þetta mál allt er ein stór og ógeðsleg kúadella.

Fjármálaráðherra valdi í tvígang verstu leiðina til að selja hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka. Fyrst í fyrra og svo aftur fyrir um fjórum vikum síðan. Afraksturinn er að landsmenn urðu af tugum milljarða króna vegna gífurlegrar undirverðlagningar. Engar haldbærar útskýringar hafa fengist á því af hverju fjármálaráðherra vék frá leiðbeiningum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) við sölu hlutabréfanna samanber grein mín Illa unnið verk.

OECD byggir leiðbeiningarnar á áratuga langri reynslu ýmissa þjóða og er þeim ætlað að tryggja hámarksverð, dreift eignarhald og æskilega samsetningu hluthafahópsins. Í staðinn þá var sérvöldum kónum og föður ráðherrans boðinn myndarlegur afsláttur á kostnað landsmanna. Með þetta í huga þá var vandræðalegt að hlusta á tvo fulltrúa Bankasýslunnar á opnum fundi fjárlaganefndar fyrr í dag. Veitt svör varðandi söluaðferðina, verðlagningu bréfanna og val á klíkubræðrum fjármálaráðherra voru hreint út sagt vandræðaleg ef ekki reginhneyksli.

Gæsla almannahagsmuna í málinu var augljóslega fyrir borð borin og einsýnt að fjármálaráðherrann gerðist brotlegur við allt að fjögur landslög. Hann verður því að axla ábyrgðina og um leið víkja af hinu pólitíska sviði. Þeir sem fara fyrir Bankasýslunni eru meðsekir og verða einnig að axla sína ábyrgð. Síðan þarf að rifta sölunni. Mér segir svo hugur að Katrín Jak og Vinstri græn muni halda áfram að vernda hinn spillta fjármálaráðherra og það sama má segja um Framsókn. Þáttur fjármálafyrirtækjanna, sem sáu um framkvæmd sölunnar, varðar einnig við lög. Söluaðilana verður líka að draga til ábyrgðar. Þetta mál allt er ein stór og ógeðsleg kúadella. 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: