- Advertisement -

Lægri verðbólga þýðir ekki að verð sé að lækka

Jóhann Þorvarðarson:

Lærdómurinn er að þó almennur álestur sýni einhverja hjöðnun þá er verðlag enn að hækka af miklum þrótti. Breskir neytendur finna mjög vel fyrir þessu þegar út í búð er farið að versla í matinn.

Álestur breskrar verðmæla heldur áfram að koma á óvart og núna eru það hækkanir á matvöru sem gera Bretum helst lífið leitt. Er nú svo komið að matvara hefur ekki hækkað hraðar í verði á einum mánuði í 45 ár samkvæmt bresku hagstofunni. Eða síðan í olíukreppunni á áttunda áratug síðustu aldar.

Þeir þrír verðmælar sem Bretar styðjast mest við hafa allir hækkað. Sá elsti eða „Retail Price Index“ óx um 0,7 prósent í mars. Sá í miðjunni „Consumer Price Index“ sýndi vöxt upp á 0.8 prósent þegar væntingar voru um hálft prósent aukningu. Unglingurinn og jafnframt sá veigamesti „Consumer Prices Index including owner occupier‘s housing cost“ hækkaði síðan um um 0,7 prósent. Allir álestrarnir liggja síðan við efri mörk langtíma verðbreytinga sem túlka ber sem vond tíðindi.

Ef við horfum 12 mánuði aftur í tímann þá lækkaði ársverðbólga á Bretlandi í mars samkvæmt öllum ofangreindum verðmælum samanborið við sambærilegan álestur í febrúar. Sá elsti sýnir bólgu upp á 13,5 prósent, en væntingar voru um 13,3 prósent verðhækkanir. Næsti mælir var einnig hærri en væntingar og telur hann verðhækkanir hafa verið 10,1 prósent á síðasta ári. Sá veigamesti segir verðbólguna hafa verið 8,9 prósent. Mikill munur á elsta og yngsta mælinum skýrist af liðum sem tengjast húsnæðiskostnaði og orkukostnaði bifreiða.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann stendur keikur með eigin áætlunum um að bólgan verði komin í 4 prósent í árslok.

Ef við horfum á undirliggjandi verðbólgu þá birtist okkur annars konar mynd. „Consumer Price Index“ mælirinn sýnir að undirliggjandi bólga hækkaði úr 6 prósentum á ársgrundvelli upp í 6,2 prósent á meðan yngsti mælirinn sýndi óbreytta stöðu upp á 5,7 prósent.

Athygli vekur að yngsti mælirinn á almennan mælikvarða hækkaði um 0,7 prósent í mars síðastliðinn á meðan hann hækkaði um 0,9 prósent í mars fyrir ári síðan. Munurinn hér er óþægilega lítill út frá væntingum ýmissa aðila um að bönd séu að komast á verðhækkanir. Vonandi er þetta bara óþægileg punktmæling frekar en að vera ávísun á áframhaldandi þrótt verðbólgudraugsins. Lærdómurinn er að þó almennur álestur sýni einhverja hjöðnun þá er verðlag enn að hækka af miklum þrótti. Breskir neytendur finna mjög vel fyrir þessu þegar út í búð er farið að versla í matinn.

Ofan á ástandið bætist að verð á olíu hefur hækkað skart síðan um miðjan mars og ýmsar þjóðir í austur Evrópu eru að stöðva frjálsan innflutning á korni og öðrum landbúnaðarvörum frá Úkraínu. Það er gert til að vernda eigin landbúnað fyrir búsifjum af völdum offramboðs. Verðbólgudraugurinn er því mögulega að fá hér óvæntan byr í seglin.  

Jeremy Hunt fjármálaráðherra Breta er áfram bjartsýnn á að það takist að særa drauginn út úr vistaverum Breta. Hann stendur keikur með eigin áætlunum um að bólgan verði komin í 4 prósent í árslok. Til að svo verði þá þarf umsnúning því undirliggjandi bólga hefur verið treg í taumi, jafnvel slitið af sér hömlur. Í þessum efnum þá er staðan á Spáni mér hugleikin því þar í landi er almenna verðbólgan aðeins 3,3 prósent á meðan undirliggjandi bólga er 7,5 prósent. Eða álíka mikil og á Íslandi. Öndvert á hnettinum er Nýja Sjáland einnig með hærri undirliggjandi bólgu en almenna verðbólgu. Þetta sýnir vel hversu djúpstæður og víðfeðmur vandinn er. Gamaldags herkænska um að ráðamenn geti beitt særingum í formi yfirlýsinga er því ekki að gagnast í baráttunni.

Að lokum er ágætt að hafa orð á því að verkföll og kjarasamningar hafa verið í gangi á Bretlandi, í Þýskalandi og víðar. Þar sem samningar hafa náðst þá er sums staðar gengið þannig frá málum að launahækkanir eru tafðar í tíma. Þær geta því valdið aukinni verðbólgu síðar og aukið við verðbólguvæntingarnar. Þetta er ólíkt því sem var á Íslandi í nýjustu kjarasamningum, en þá voru launahækkanir afturvirkar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: