- Advertisement -

Læknar og styttri vinnutími

Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, skrifaði:

Vissuð þið að læknar eru ráðnir til heilbrigðisstofnana sem dagvinnumenn, sem þýðir að öll vinna utan dagvinnutíma er greidd með yfirvinnu? Það sama gildir ekki um annað starfsfólk heilbrigðisstofnana sem fær vaktaálag fyrir vinnutíma um kvöld, nætur, helgar og rauða daga. Og já það eru þó nokkuð lægri launagreiðslur – hvernig sem litið er á það. Læknar eru líklega eina heilbrigðisstéttin sem ekki hefur enn samið um styttingu vinnuvikunnar. Það má svo velta fyrir sér hvort þessi þátttaka lækna í opinberri umræðu að undanförnu um styttingu vinnuvikunar sé tilviljun. Og þá hvert markmiðið er raunverulega?

Markmið styttingu vinnuviku er að gera störfin eftirsóknarverðari, bæta starfsaðstæður og bæta heilsu starfsfólks. Sömuleiðis að koma í veg fyrir mikla starfsmannaveltu, mönnunarvanda, mikla veikindafjarveru, óánægju starfsfólks vegna álags í starfi og stuðla að því að fólk velji sér fullt starf í stað hlutastarfs. Fram að þessu hefur mikill meirihluti vaktavinnufólks kosið að vera í hlutastarfi vegna þess hve þung störfin eru og ófjölskylduvæn.

Reynslan hér á landi og erlendis sýnir að þessi markmið munu nást. Það er líka ljóst að áralangur mönnunarvandi verður ekki leystur á einni nóttu – það er alþjóðlegt vandamál t.d. að skortur sé á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Sé ekkert gert til að laða fólk til starfa mun staðan augljóslega versna. Í aðdraganda gildistöku styttri vinnuviku 1. maí s.l. hjá ríki og sveitarfélögum ákváðu 96% starfsfólks í hlutastarfi að auka við sig starfshlutfall – svo eitt stærsta markmiðið er nú þegar að nást á fyrsta mánuði.

Skipulag vinnutíma er hluti af stjórnun hvers vinnustaðar. Það er hluti af breytingum nú á vinnutíma í vaktavinnu að farið verði í endurskoðun á skipulagi vinnutíma og verkefna með það að leiðarljósi að finna sem hagkvæmast fyrirkomulag fyrir reksturinn og starfsfólk. Reynsla sænskra heilbrigðisstofnana af styttingu vinnutíma eru til dæmis að biðtími sjúklinga eftir aðgerðum hafi styst sem hafði jákvæð áhrif á reksturinn. Ein stofnunin ákvað að hafa tvær skurðvaktir yfir daginn í stað einnar og margfölduðu þar með afköstin.

Það yrði mikið gæfuspor ef við gætum sameinast um að fara að hugsa hlutina upp á nýtt í stað þess að líta svo á að óbreytt ástand sé best. Tala um tækifærin og möguleikana í staðinn fyrir að einblína á litlar hraðahindranir á veginum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: