- Advertisement -

Lærdómur frá New York og kórónaveiran

Kórónaveiran er hálfgert hryðjuverk sem herjar á öll hagkerfi heimsins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í viðtali þá kvartar borgarstjóri Reykjavíkur yfir því að vegna kórónaveirunnar treysti jötnar íslenskra hagspáa sér ekki til að uppfæra eldri hagspár. Þetta er skiljanlegt, en það má samt reyna. Mín nálgun er að skoða hagsöguna og líta til Bandaríkjanna varðandi efnahagsleg áhrif falls tvíburaturnanna í Manhattan 11. september 2001. Hér er um að ræða stakan atburð alveg eins og kórónuveiran er, sem lamaði efnahag Bandaríkjanna um stund.

Árin fyrir hryðjuverkið þá var bandarískt hagkerfi gróskumikið og hagstjórn miðaði að því að hægja á ósjálfbærum vexti til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu. Grunnvextir seðlabankans voru komnir yfir 6% árið 2000 og verðbólga var að daðra við 4%. Sjálfstraust neytenda var í hæstu hæðum og mældist vísitala þar um 110 stig,  sem er nálægt sögulegu hámarki. Sjálfstraust fyrirtækja var einnig  á háflugi. Hagvöxtur árið 1999 var 4,1% og 2,8% árið 2000.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á meðan þjáist fólk í landinu.

Þessi hagræni bakgrunnur er ekki svo ólíkur aðstæðum sem ríkt hafa á Íslandi undanfarin ár. Því er ekki úr vegi að skoða áhrif hryðjuverkanna á Bandarískt efnahagslíf og draga lærdóm af. Kórónaveiran er hálfgert hryðjuverk sem herjar á öll hagkerfi heimsins.

Þegar leið að hausti árið 2001 þá dróst hagkerfi Bandaríkjanna saman um 0,4%. Síðustu þrjá mánuði ársins eða mánuðina eftir hryðjuverkið þá mældist hagvöxtur vera 1,1%. Árið endaði síðan í 1% vexti í samanburði við aldamótaárið. Fyrsti fjórðungur ársins 2002 kom inn með trukki og mældist hagvöxtur vera 3,5%. Annar fjórðungur óx um 2,4% og sá þriðji um 1,8% og sá fjórði um 0,6%. Árið 2003 sýndi síðan 2,9% hagvöxt og næstu ár voru þróttmikil.

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum var vaxandi allt árið fyrir hryðjuverkið og stóð í 4,9% prósentum við fall turnanna. Mánuðina á eftir jókst atvinnuleysi og stóð það í 5,9% í apríl 2002 og við árslok var það komið í 6,3%. Eftir það fór atvinnuleysið lækkandi og botnaði skömmu fyrir fjármálahrunið eða um svipað leyti og Davíð Oddsson setti Seðlabanka Íslands á hliðina.    

Lærdómurinn af þessu er sá að búast má við fjörkipp þegar veirufaraldurinn gengur yfir. Hagvöxtur gæti vaxið hratt seinni part þessa árs og árið mögulega endað í 0,8% hagvexti eða yfir. Á sama tíma gæti atvinnuleysi vaxið úr 3,6% í rúmlega 5%. Ég hef ekki aðgang að rauntímaupplýsingum og er því með bundið fyrir annað augað. Svo er ekki vitað með vissu hvað þessi faraldur stendur lengi yfir þannig að spá mín er ónákvæm. Hún er meira svona innlegg í umræðuna og vonandi örlítið leiðarljós.

En þetta hefst ekki án aðgerða. Í Bandaríkjunum gripu stjórnvöld til fjögurra þensluaðgerða og hleyptu fé úr tveimur neyðarsjóðum til að lána litlum fyrirtækjum gegn ströngum skilyrðum. Lánsaðgerðirnar mældust illa fyrir og urðu mjög umdeildar vegna spillingarilms þar í kring. Annað gekk vel upp.

Hér á Íslandi þá þarf að taka krónuna af markaði og lækka vexti niður í núll prósent tímabundið. Sitjandi ríkisstjórn á Íslandi er verklítil og hefur forðast að taka stórar ákvarðanir. Maður er orðinn ansi langeygur eftir mannfrekum stórframkvæmdum á vegum ríkisins. Taktíkin er augljóslega sú að gera minna fram að kosningaári. Á meðan þjáist fólk í landinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: