
Á sama tíma þá eru ráðstafanir ríkisstjórnar Íslands máttlitlar, svifaseinar og hafa röng áhrif.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Línuritið staðfestir að ríkisstjórn Íslands er ráðalaus, nær ekki árangri í baráttunni við atvinnuleysið. Hagstjórn landsins hefur brugðist. Samkvæmt glænýjum tölum þá var atvinnuleysi í Bandaríkjunum 6,7 prósent í nóvember og minnkaði enn einn mánuðinn. Á sama tíma rýkur atvinnuleysi upp hér á landi. Áætlar Vinnumálastofnun að atvinnuleysi á Íslandi í nóvember hafi verið 11,9 prósent. Leiðir landanna byrjuðu að skilja í júlí eftir nána fylgd framan af faraldrinum. Þar ræður ólík nálgun á hagstjórnina. Hér geta stjórnvöld ekki afsakað sig með vísan í árstíðabundnar breytingar atvinnustigs eða að samfélagsgerðin sé ólík.
Atvinnuleysi á Íslandi er með því allra mesta.
Ólíkt íslenskum stjórnvöldum þá gripu þau bandarísku strax til myndarlegra og árangursríkra aðgerða á eftirspurnarhlið hagkerfisins þegar faraldurinn byrjaði að ganga yfir heiminn. Atvinnuleysislaun voru stórhækkuð tímabundið. Aðgerðin náði einnig til þeirra sem af einhverjum ástæðum voru utan kerfis eða þáðu greiðslur frá þar lendri tryggingastofnun. Meira var gert til að styðja við tekjulitla neytendur, sem ekki verður rakið í þessari grein. Kjarninn í aðgerðunum er að engin neytandi var undanskilin á eftirspurnarhlið hagkerfisins. Á sama tíma þá eru ráðstafanir ríkisstjórnar Íslands máttlitlar, svifaseinar og hafa röng áhrif. Athygli stjórnarinnar er mest á framboðshliðinni, sérhagsmunum. Seðlabanki Íslands lötrar síðan í humátt á eftir eins og sólþurrkuð skjaldbaka. Bankinn stendur vestrænum seðlabönkum langt að baki og hefur misst tökin á verðbólgunni.
Vandamálið sem íslensk stjórnvöld ávarpa ekki er að stór hluti þjóðarinnar hefur ekki nægilegan kaupmátt til að framfleyta sér. Veldur það miklum eftirspurnarslaka, sem aftur hægir verulega á hreyfanleika vinnuafls úr ferðaþjónustu yfir til annarra atvinnugreina. Líkja má röngum viðbrögðum stjórnvalda við þotu sem flýgur á öðrum hreyflinum. Þegar vélin lendir er ekki hugað að viðgerð. Hún er bara send aftur í loftið á hálfu afli með óskum um góðan bata.
Önnur lönd sem við berum okkur gjarnan saman við hafa náð enn betri árangri en Bandaríkjamenn. Atvinnuleysi á Íslandi er með því allra mesta og kemur allur samanburður illa út fyri Ísland. Sem dæmi um lönd, sem einnig eru mjög háð inn- og útflutningi, þá var atvinnuleysi í Sviss ekki nema 3,2 prósent í október og 5,2 prósent í Noregi. Ég get haldið áfram að telja upp, en ljóst er að eitthvað er verulega brotið í hagstjórn landsins. Línuritið er ekki skrök.