- Advertisement -

Leirburður fjármálaráðherra ágerist

Afnám verðtryggingar á Íslandi stöðvast á úreltri hugsun eins og fjármálaráðherra temur sér.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Rangfærslur fjármálaráðherra eru stigversnandi samanber neðangreind þrjú dæmi:

#1

Þú gætir haft áhuga á þessum

Úr ræðustól Alþingis þá sagði ráðherrann orðrétt í tengslum við verðtryggingu skulda „En lausnirnar við þessu finnst mér vera heldur fátæklegar, að kippa einfaldlega öllum tengingum við verðbólguna úr sambandi án þess að það sé rætt hvað það þýðir í stærra samhengi hlutanna, til dæmis fyrir framboð á lánsfé til lengri tíma, jafnvel til skamms tíma“.

Þeir sem temja sér þetta hugarfar slá ekki í takt við nútímann og eru komnir fram yfir síðasta söludag í sinni pólitík.

Hér heldur ráðherrann því ranglega fram að samhengi sé milli verðtryggingar og framboðs lánsfjár. Engin slík tengsl fyrirfinnast á fjármálamörkuðum nútímans enda er hvergi annars staðar í veröldinni að finna verðtryggingu fjárskuldbindinga nema kannski í Ísrael. Þetta hefur samt ekki haft nein áhrif á peningaframboð í heiminum. Benda má á að undanfarinn áratug þá hafa lánendur sóst í sívaxandi mæli eftir því að lána til lítilla hagkerfa sem búa við eigin gjaldmiðil. Lán af þessum toga í heiminum jukust um 54 prósent á áratugnum og sýna gögn að verðtrygging spilaði þar enga rullu. Svo má nefna að um mitt síðasta ár þá tók Ríkissjóður Íslands evrulán og var eftirspurn erlendra fjárfesta fimmföld á við lánsþörf ríkissjóðs. Lánið var óverðtryggt!

Ef innlendir lánarar gerðu kröfu um verðtryggingu á öll lán þá myndu nýir aðilar fylla strax upp í tómið. Þá kæmi aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sér vel. Afnám verðtryggingar á Íslandi stöðvast á úreltri hugsun eins og fjármálaráðherra temur sér. Viðhorfið var ráðandi undir lok síðustu aldar og er til vandræða. Þeir sem temja sér þetta hugarfar slá ekki í takt við nútímann og eru komnir fram yfir síðasta söludag í sinni pólitík.

#2

Við sama tilefni þá sagði ráðherrann einnig orðrétt „Það er áhyggjuefni að gengi Íslensku krónunnar hefur lítillega gefið eftir“. Hið sanna er að krónan hefur veikst mikið að undanförnu. Sem dæmi þá hefur hún gefið 19 prósent eftir gagnvart dönsku krónunni og 17 prósent gagnvart þeirri sænsku. Veikingin er yfir 20 prósent gagnvart dollar og vel í 18 prósent gagnvart evru. Síðan er breska pundið að sækja í sig veðrið og hefur það sótt hátt í 15 prósent til krónunnar. Vegna veikingar krónunnar þá standa verðbólguvæntingar í 6 prósentum og eru þær á uppleið. Til að setja þetta í samhengi þá mun veikingin þegar hún er öll gengin í gegn rýra kaupmátt almennings um meira en 200 milljarða á ársgrundvelli. Ráðherranum finnst þetta vera lítilræði. Í Garðabænum má vel vera að þetta sé smátt í sniðum, en almenningur finnur fyrir þessu!

#3.

Nýverið sagði ráðherrann að þeir sem eru með verðtryggð lán séu í betra skjóli gagnvart verðbólgu, en þeir sem hafa óverðtryggð lán. Ég hrakti þessa algjöru vitleysu í öðrum pistli samanber „Óverðtryggt eða verðtryggt lán, hvort er betra?“ og vísast í greinina til nánar útskýringa.

Samantekið þá er sannleiksást ráðherrans að nálgast hliðarveruleika Donalds Trumps forseta. En forsetanum ratast sjaldnast satt orð á munn þó kjöftugur sé.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: