- Advertisement -

Lífeyrissjóðir aftur í tímann – samruni í uppnámi?

Neytendur hafa síðan enn meiri hagsmuni að skilmálar sáttarinnar séu uppfylltir.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Lífeyrissjóðir landsins eiga meira en 63 prósent í almenningshlutafélaginu Festi, sem á og rekur Krónuna, Elko og N1. Forstjórinn Eggert Þór Kristófersson og stjórnarformaðurinn Þórður Már Jóhannesson hafa farið mikinn á undanförnum dögum. En þannig er að Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu árið 2018 að samruni fyrirtækjanna undir nafni Festis raski að óbreyttu samkeppni á ákveðnum landsvæðum. Var niðurstaðan sú að Festi og Samkeppniseftirlitið gerðu með sér sátt í þá veru að tilteknar rekstrareiningar yrðu seldar frá samstæðunni. Tilgangurinn var að viðhalda verðsamkeppni, vöruúrvali og þjónustustigi á viðkomandi svæðum.

Til að fylgja samkomulaginu eftir þá var sérstakur kunnáttumaður í samkeppnislögum skipaður eftir tilnefningu frá Félaginu sjálfu. Sá heitir Lúðvík Bergvinsson og passar hann upp á að ákvæði sáttarinnar séu uppfyllt. Brigður þar á getur varðað sektum eða afturköllun á samrunanum samkvæmt samkeppnislögum. Þannig að hluthafar Festis hafa ríka hagsmuni af því að stjórnendur Festis uppfylli skilyrði fyrir samrunanum. Á mannamáli þá heitir það að efna gefin loforð. Neytendur hafa síðan enn meiri hagsmuni að skilmálar sáttarinnar séu uppfylltir.

Núna er fyrirtækið ósátt við sáttina og eftirlitið og skal þá vaðið í manninn. Háloftatæklingum er beitt á Lúðvík án þess að hann geti veitt sér vörn vegna trúnaðar sem hann er bundinn af. Öll tjáning myndi gera hann vanhæfan til að gegna hlutverki sínu. Festi rekur þann áróður með aðstoð Fréttablaðsins að Lúðvík sé dýr á fóðrinu. Látið er að því liggja að hann sé að maka krókinn. Enginn marktækur rökstuðningur fylgir né trúverðugar upplýsingar. Á ferðinni er því gróf árás á æru eftirlitsmannsins og getur tilgangurinn ekki verið annar en að svæla fram tjáningu sem framkallar vanhæfi. Þá yrði að gera sátt um nýjan eftirlitsaðila sem Festi vonast væntanlega til að verði leiðitamari.

Framganga Eggerts og Þórðar þekktist vel fyrir hrun. Þá hömuðust bankar og sjóðir í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka alla daga ársins. Eggert og Þórður koma einmitt úr þessari menningu. Störfuðu báðir hjá fjármálafyrirtækjum sem fóru á hvínandi kúpuna í hruninu. Eggert starfaði hjá Glitni og Þórður stjórnaði Fjárfestingarfélaginu Gnúpur. Fulltrúi stórs hluthafa Gnúps lét hafa eftirfarandi eftir sér hjá Vísi í nóvember 2019 vegna dómsmál sem rekið var/er gegn Þórði „Talsvert miklum blekkingum hafi verið beitt, fyrst til að fá okkur inn í félagið og síðan með hvaða hætti félagið var skuldsett. Því þetta var alveg sturluð skuldsetning. Skuldsetningin hafi aðallega verið með framvirkum samningum upp á tugi milljarða“. Fulltrúi hluthafanna vill einnig meina að ársreikningar Gnúps hafi verið ómarktækir.

Fyrir fjármálahrun þá sváfu lífeyrissjóðirnir á verðinum varðandi góða stjórnarhætti. Hafa síðan lofað bót og betrun. Sett sér viðmið um stjórnarhætti í félögum sem fjárfest er í. Í þeim er sérstaklega tiltekið að hættirnir taki mið af langtímahagsmunum félags. Í þessu samhengi þá verður að svara þeirri spurningu hvort að framganga tvímenninganna sé til þess fallin að tryggja þessa langtímahagsmuni. Samruninn gæti verið í hættu. Neytendur bregðast síðan við bolabrögðum stjórnendanna með því að versla hjá keppinautum. Hegðun Eggerts og Þóðrar varðar orðspor fyrirtækisins og missir þess er ekki auðveldlega unnin til baka. Dæmin sanna það!

Miðjan mun fylgja málinu eftir og senda fyrirspurn til stærstu hluthafa Festis (lífeyrissjóða) hvort hegðunin sé með vilja og samþykki sjóðanna og í samræmi við sett viðmið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: