- Advertisement -

Líka ósannindamaður?

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Það verður að bregðast við og niðurstaðan getur ekki orðið önnur en að Ásgeir Jónsson hverfi frá bankanum. Þetta mál er þyngra en tárum taki.

Viðbrögð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra við ásökunum Bergsveins Birgissonar um meintan ritstuld voru vanstillt og ómálefnaleg. Meðal þess sem Ásgeir sagði var að hann hefði nú verið þjófkenndur fyrsta sinni á ævinni. Var um að ræða örvæntingarfulla tilraun af hans hálfu til að halda úti óhaldbærri heilagleikaímynd.

Nú hefur sagnfræðingurinn Árni H. Kristjánsson stigið fram í viðtali við Fréttablaðið og sakað Ásgeir um ritstuld. Ásökunin var fyrst sett fram árið 2014 og réttmæti hennar staðfest af tveimur hlutlausum rannsakendum á vegum Alþingis. Átti ritstuldurinn sér stað í tengslum við gerð skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall Sparisjóðanna. Í viðauka E með skýrslunni er Ásgeir sagður einn þeirra sem kom að skýrslugerðinni.   

Aðilarnir sem fóru í saumana á ásökunum Árna komust orðrétt að eftirfarandi niðurstöðu „Niðurstaða okkar er sú að í allnokkrum tilvikum sé texti skýrslunnar svo líkur texta Árna H. Kristjánssonar, bæði varðandi orðalag og efni, að telja megi án vafa að um ritstuld sé að ræða“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sæmdar- og höfundarréttur Árna var rofinn.

Af þessu tilefni þá hafði Ásgeirs Jónsson eftirfarandi að segja „Ég get engu svarað um þetta. Ég kom að þessu verki í raun á lokastigum, var einn margra höfunda og fékk afhent efni sem mér var sagt að væri í eigu nefndarinnar“. Samkvæmt þessu þá rannsakaði Ásgeir ekki uppruna textans, sem hann ákvað að nýta sér. Hann tók bara „copy-paste“ á málið og þáði greiðslu fyrir. Fræðimaðurinn Ásgeir veit betur enda þjálfaður í akademískum vinnubrögðum. Þannig að stuldurinn var með fullri vitund um að hann hafði rangt við.  Sæmdar- og höfundarréttur Árna var rofinn.

Sjálfur hef ég heimildir fyrir því að þegar Ásgeir var starfandi hjá Háskóla Íslands að þá hafi hann umgengist heimildir svo frjálslega að til vandræða var.

Upp er komin grafalvarleg staða því trúverðugleiki Seðlabankans og fjármálamarkaðarins gagnvart útlöndum er undir í málinu. Að æðsti maður fjármálamarkaðar landsins hafi bæði verið staðinn að ritstuld og ósannindum gengur einfaldlega ekki upp, getur haft neikvæð áhrif á lánshæfi landsins og íslenskra aðila. Að það stafi óheiðarleika frá bankanum kallar á viðbrögð forsætisráðherra og ríkisstjórnar. Það verður að bregðast við og niðurstaðan getur ekki orðið önnur en að Ásgeir Jónsson hverfi frá bankanum. Þetta mál er þyngra en tárum taki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: