- Advertisement -

Loddarahreyfingin

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Í sambandinu má nefna að hvergi á Vesturlöndum er raunskattur fjármagnstekna lægri en á Íslandi ef skattaskjólið Andorra er undanskilið.

Krappar hægri beygjur Vinstri grænna eftir síðustu kosningar eru kosningasvik. Samkvæmt ítrekuðum viðhorfskönnunum hefur það leitt til geipilegs fylgishruns og er staða Katrínar formanns og Guðmundar varaformanns veikari en nokkru sinni fyrr. Það sést til dæmis á því að tilraunir Katrínar til að koma sínu fólki að í kjördæmum utan Reykjavíkur mistókust herfilega. Hér á ég við tilfæringar kvennaruddans Kolbeins Óttarssonar Proppé og persónulegan aðstoðarmann formannsins, Róberts Marshalls. Stuðningur Katrínar við kvennadólginn þykir afar umdeildur og er viðkvæmt mál innan Vinstri grænna þar sem borist höfðu formlegar kvartanir um dólgslega hegðun Kolbeins.   

Í skattamálum þá er búið að koma á tvöföldu tekjuskattskerfi, sem hefur verið draumur Sjálfstæðisflokksins í áraraðir. Eitt fyrir þá efnameiri og annað fyrir hina efnaminni. Fyrir vikið þá hefur ójöfnuður í landinu aukist. Víkin hefur dýpkað. Á öðrum Norðurlöndum þá eru skattkerfin notuð til að koma á auknum jöfnuði og til að styrkja lýðræðið. Allt er aftur á móti með öfugum formerkjum á Íslandi. Er nú svo komið að Ísland hefur tekið fram úr Bandaríkjum Trumps í þjónkun við auðvaldið. Í sambandinu má nefna að hvergi á Vesturlöndum er raunskattur fjármagnstekna lægri en á Íslandi ef skattaskjólið Andorra er undanskilið.

Fyrir fjármálahrunið árið 2008 þá var það yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar að breyta Íslandi í skattaparadís og þvottastöð auðmanna. Við þekkjum afleiðingarnar. Það sætir því furðu að Vinstri græn standi að baki þeirri þróun sem átt hefur sér stað í skattamálum. Systurflokkarnir tveir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur nörruðu óvitana í Vinstri grænum með sér í leiðangurinn án fyrirhafnar. Vinkonurnar Svandís og Katrín þráðu ráðherrastóla heitar en eiginmenn sína og gáfu mikla afslætti á stefnumálum. Á meðan við erum með krónu sem gjaldmiðil þá eru aðgerðirnar tifandi tímasprengja sem sprungið getur af fítonskrafti framan í þjóðina af minnsta tilefni. Ég vara eindregið við þróun mála!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svandís hefur verið dugleg í tilraunum sínum að þagga niður samfélagsumræðuna eins og frægt er orðið.

Meðferð Vinstri grænna á heilbrigðiskerfinu er sér kapítuli. Samþykkt var að taka upp sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins og reka sjúkrahúsin eins og hvert annað hótel þar sem rúmanýting skiptir öllu. Fullnýting sjúkrarúma veldur aftur á móti stóráhættu því ekki er hægt að bregðast við óvæntum atburðum eins og flugslysi, rútuslysi eða aukningu alvarlegra kóvít-19 tilvika. Hingað til þá höfum við verið  lánssöm að ekki hefur reynt á áhættuna fyrir utan neyðarástandið sem kom upp á síðasta ári. Þá urðu ótímabær dauðsföll samanber Landakotsmálið glæpsamlega. Stjórnendur landspítalans hafa oftlega varað heilbrigðisráðherra við ástandinu, en talað fyrir daufum ef ekki lokuðum eyrum Svandísar.

Svandís hefur verið dugleg í tilraunum sínum að þagga niður samfélagsumræðuna eins og frægt er orðið. Fyrst krafðist hún að læknar yrðu múlbundnir þegar ástandið var rætt fyrir nokkrum misserum og núna nýlega heimtaði Svandís að sóttvarnir yrðu ekki kosningamál. Kúgunartilburðir Svandísar eru til vandræða í opnu og upplýstu samfélagi nútímans. Vekur framferði Svandísar upp þá spurningu hvort hún þurfi ekki að snúa sér að öðru en stjórnmálum þar sem hún þolir ekki gagnrýna og málefnalega umræðu. 

Síðan eru það umhverfismálin sem Vinstri græn þykjast standa sig svo vel í. Allt kjörtímabilið þá hafa sama og engar ráðstafanir verið teknar varandi mengun hafsins, en hafið er stærsta vistkerfi jarðarinnar. Hefur bein áhrif á loftslagið. Fiskeldi hefur síðan verið dritað niður í firði landsins án þess að nægilegar umhverfisrannsóknir liggi að baki um áhrif eldisins á hafið og nánasta umhverfi. Í þessu sambandi þá ógilti umhverfisráðherra úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála í máli eldisfyritækis á Vestfjörðum. Með bolabrögðum innan stjórnsýslunnar var fiskeldisfyrirtækinu veitt starfsleyfi með leifturhraða á kostnað hafsins og heilbrigði fiskanna. Fiskar synda nú um kvíarnar stórvanskapaðir eins og nýleg myndbrot sýna. 

Vafasöm einkavæðing Íslandsbanka þar sem eignarhlutur var seldur á tombóluverði mun flokkast sem gjafagerningur…

Vinstri græn hafa löngum sagt að markaðsgjald eigi að fást fyrir nýtingu á fiskveiðiauðlind þjóðarinnar. Það var því undarlegt þegar Vinstri græn tóku upp á því að verja kvótastefnu Sjálfstæðisflokksins á Alþingi og samþykkja lækkun auðlindagjalds. Um leið var vegið að umhverfisvænum og frjálsum strandveiðum hringinn í kringum landið.

Vafasöm einkavæðing Íslandsbanka þar sem eignarhlutur var seldur á tombóluverði mun flokkast sem gjafagerningur sem hafði þann eina tilgang að næra græðgistaug Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla fjármálaráðherra. Komið hefur á daginn að margir þeirra sem tóku þátt í frumútboðinu seldu sig strax út til að innleysa myndarlegan hagnað eftir að hafa átt hlutabréfin í aðeins í örfáa daga. Þessi þróun hefur haldið áfram og nær til bæði innlendra- og erlendra fjárfesta. Hér er á ferðinni athöfn sem verður að rannsaka því misfarið var með ríkiseigur.     

Það má vera kaldranalegt að kalla Vinstri græn loddara, en verra er að sigla undir fölsku flaggi gagnvart kjósendum. Bautasteinn loddaraskaparins er auðvitað yfirlýsing Katrínar Jak um að fátækir eigi ekki að þurfa að bíða eftir réttlætinu. Núna við lok kjörtímabilsins þá sýna opinber gögn að það sé jafn erfitt að vera fátækur og fyrir fjórum árum. Kjörtímabilið hefur veitt yfirsýn nýja fyrir hvað Vinstri græn standa. Upp í hugann kemur skírskotun um úlfinn og sauðagæruna. Vinstri græn eru í raun hægri fölgræn.  Framvegis er rétt að kalla Vinstri græn „Loddarahreyfinguna“.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: