
Jóhann Þorvarðarson:
Hér sannar Þorsteinn að hann stendur ekki á neinum Kögunarhóli heldur situr hann fastur í gjótu þaðan sem enga yfirsýn er að hafa.
Kögunarhóll Þorsteins Pálssonar er einungis lítil steinvala ef ekki bara hola þar sem haka hans jafnar yfirborð jarðar. Þetta verður jafnan ljóst þegar hann lögfræðingurinn reynir að fjalla um efnahagsmál. Nú síðast gerðist það í grein sem hann nefnir „Sleggjudómur“, en í henni setur Þorsteinn fram fáséða loðmullu um seðlabankastjóra landsins.
Í annan stað þá gagnrýnir Þorsteinn seðlabankastjóra fyrir óábyrgt tal eins og ég hef sjálfur gert um langa hríð enda er seðlabankastjóri óbeislaður tungufoss, sem býr yfir djúpstæðri þörf að vera álitið vera séní á sviði hagmála. Á ferðinni er kvilli sem kristallast í stórfurðulegri tjáningu.
Þorsteinn Pálsson lætur ekki staðar numið heldur finnur hjá sér þörf að mæra seðlabankastjóra um leið og hann gagnrýnir manninn. Svona eins og til að halda sér í náðinni hjá valda-elítunni . Þorsteinn segir orðrétt „Forysta bankastjórans í peningastefnunefnd hefur ekki gefið tilefni til gagnrýni. Nefndin hefur aðeins tekið faglegar ákvarðanir . Þar hefur bankastjórinn staðið sig vel.“ Hér sannar Þorsteinn að hann stendur ekki á neinum Kögunarhóli heldur situr hann fastur í gjótu þaðan sem enga yfirsýn er að hafa.
Getur ekki einhver rétt Þorsteini klifurreipi svo hann komist upp úr gjótunni áður en hann skrifar næst um hagmál?
Það er skjalfest í fundargerð Seðlabanka Íslands að bankinn tók mislukkaða ákvörðun í mars árið 2020, sem olli því að verðbólga á Íslandi byrjaði að aukast á meðan hún stóð í stað eða hjaðnaði allt í kringum okkur í kóvít-19 faraldrinum. Er nú svo komið að uppsöfnuð verðbólga á Íslandi frá þessum tíma er miklu meiri en alls staðar hjá löndum sem við viljum flokkast með. Þetta hefur leitt af sér vaxtarstig sem turnar vexti hjá umræddum samanburðarlöndum. Skuldarar finna vel fyrir þessu og skiptir engu máli hvort við erum að tala um heimilin, fyrirtækin eða ríkissjóð. Víða er róðurinn afar erfiður og fer versnandi.
Í ljósi þess að Þorsteinn Pálsson kallar eigin grein Sleggjudómar þá er ekki úr vegi að kalla lof hans á seðlabankastjóra „órökstuddan átrúnað“. Ekkert í gögnum bankans eða í hagtölum landsins réttlæta átrúnað Þorsteins á seðlabankastjóranum. Fær það mig til að hugsa hvort einhver nákominn Þorsteini starfi innan bankans? Nú eða hvort við séum að horfa til manns sem getur ekki sett sjálfan sig í spor almúgans, sem þrælar fyrir afborgunum af sínum íbúðalánum. Getur ekki einhver rétt Þorsteini klifurreipi svo hann komist upp úr gjótunni áður en hann skrifar næst um hagmál?