- Advertisement -

Lögmannafélagið var sér til ævarandi háðungar

Hefndarþorsti dómara eða klíkutengsl eiga heldur ekki erindi í dómsniðurstöður eða inn á borð fagfélaga.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Aðalfundur Lögmannafélagsins í vikunni var farsakenndur. Minnti á sápuna Dallas þegar tiltekinn lögmaður sýndi einstakt yfirlæti. Réðst ómálefnalega að heiðursfélaganum Jóni Steinari Gunnlaugssyni fyrrverandi Hæstaréttardómara. Oflátungurinn þóttist lýsa öllum málavöxtum í máli sem rekið var af félaginu gegn Jóni Steinari. Mál sem fór alla leið, tapaðist í Landsrétti og svo aftur upp í Hæstarétti. Ég sem áhorfandi út í bæ áttaði mig fljótt á því að eitthvað vantaði upp á frásögnina því oflátungurinn sleppti alveg að segja mér hver rótin að málinu var. Nei, það var meira spennandi að rakka Jón Steinar niður og segja hann vera rustamenni, að hann sýni dómurum ekki nægilega undirlægjusemi. Það vantaði bara að segja að hann væri eins og JR í Dallas, ruddi sem svífst einskis. Sem betur fer bað Jón Steinar um orðið öðru sinni á fundinum og botnaði frásögn oflátungsins.

Upplýsti Jón Steinar að þegar hann rak tiltekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi stirðleiki hlaupið í samskipti milli hans og dómara málsins. Jón greip til kjarnyrtrar íslensku í einkasamskiptum við dómarann sem varð ægilega argur, sár og súr. Í kjölfarið skrifaði dómarinn vinum sínum í Lögmannafélaginu kvörtunarbréf sem móttekið var af oflátungnum. Í bréfinu stóð efnislega „Hjálp, æ, æ og ó ó, Jón Steinar er dónalegur maður. Ég er hörundsár. Vilji þið kyssa meiddið mitt og skamma Jón“. Boltinn byrjaði að rúlla og stoppaði ekki fyrr en upp í Hæstarétti. Nei fyrirgefið, hann hélt áfram að rúlla á aðalfundinum þegar enn og aftur varð gerð atlaga að mannorði Jóns Steinars. Betra hefði verið að biðja heiðursfélagann afsökunar á bramboltinu, ósómanum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þó ég þekki Jón Steinar ekkert og hef aldrei umgengist manninn þá veit ég að hann hefur gaman að fótbolta.

Þó ég þekki Jón Steinar ekkert og hef aldrei umgengist manninn þá veit ég að hann hefur gaman að fótbolta. Hefur sjálfur sagt frá því í gömlu blaðaviðtali. Æfði reglulega með Lunch United að ég held. Að sögn kunnugra þá var hann ekki sá fimasti, en hann kunni þó þá list að sparka í boltann. Lét manninn í friði, en gat verið yggldur á svip. Svona svipað og Phil Jones í hita leiksins hjá rauða liðinu í Manchester.

Ég verð að segja að umræddur dómari og oflátungurinn hefðu dugað skammt á Sturlungaöld þegar menn böðuðu hörundsæri af sér í heitum baðlaugum eftir rimmur vikunnar. Í dag þá er þetta kallað að skilja lætin eftir í búningsklefanum þegar leik er lokið. Hver heldur sína leið og smílar framan í heiminn. Ýkt kurteisi getur ekki verið ófrávíkjanlegur háttur í framkomu við dómara og í störfum lögmanna í ljósi mikilla hagsmuna og tilfinninga sem tengjast dómsmálum. Það verður að vera rými fyrir almenna mennsku í návist dómara. Þeir eru sjálfir breyskir!

Þetta mál allt varpar kastljósi á þann undirlægjuhátt sem margir lögmenn sýna dómurum. Sjálfir vilja þeir kalla þetta kurteisi þegar þeir bugta sig og beygja út í eitt. Sýna þrælslund. Svona getur dómskerfið ekki virkað. Málsaðilar geta ekki átt það undir geði dómara hverjar málalyktir verða. Hefndarþorsti dómara eða klíkutengsl eiga heldur ekki erindi í dómsniðurstöður eða inn á borð fagfélaga.

Herkostnaður Lögmannafélagsins fór víst í tæplega 11 milljónir króna.

Krafan um ýkta kurteisi gagnvart dómurum hlýtur að eiga við um gagnaðila máls eða er tvöfalt kerfi í gangi. Rifjast þá upp þegar oflátungurinn rak sjálfur mál nýlega af skefjalausri hörku og óbilgirni, bæði í fjölmiðlum og í dómsal, gegn öryrkjanum sem stóð Miðflokksmenn að sorakjafti á Klausturbar. Hvar var nærgætnin og ýkta kurteisin þá. Er ýkta kurteisin kannski valkvæð og notist eftir hentugleika. Svo er það nú þannig að lögmenn geta verið ókurteisir á margan háttinn og þarf ekki endilega orð til. Þetta með bjálkann og flísina kom óneitanlega upp í huga mér þegar ég hlustaði á gasprið í oflátungnum.

Herkostnaður Lögmannafélagsins fór víst í tæplega 11 milljónir króna, sem almennir félagsmenn þurfa nú að greiða úr eigin vasa í þessu ómerkilega máli. Aðalfundurinn samþykkti að hækka félagsgjaldið í 72 þúsund krónur til að standa straum af þessari svaðilför félagsins. Ýmsir félagar eru sjóðandi rauðir yfir bullinu. Þá er eðlilegt að spyrja hvort siðapostulinn og oflátungurinn vilji ekki axla ábyrgð og borga reikninginn úr eigin vasa, var hann ekki formaður þegar málið rúllaði af stað. Það er alveg óhætt að segja sem er að oflátungurinn setti alveg ný viðmið í asnaskap, líka þegar hann rak málið gegn öryrkjanum.

Jón Steinar er tjáningarfús maður og sérstaklega um málefni sem þöggun hefur ríkt um, þ.e. Hæstarétt. Fræðimenn framtíðar muna standa í þakkarskuld við þá málefnalegu og rökstuddu tjáningu. Uppistandarar munu aftur á móti minnast oflátungsins með bros á vör. Hann er orðinn ný uppspretta fimmaura brandara og rifjast þá upp einn gamall sem sagður var í fínu hverfi í London. „Maður hrasaði um reimarnar og var handtekinn. Það er víst ókurteisi“.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: