
Jóhann Þorvarðarson:
Ásmundur Einar virðist treysta á áframhaldandi viðbragðsleysi lögreglunnar á Vesturlandi og sýnir þar með landsmönnum að hann reiði ekki vitið í þverbakspokum.
Eins og títt er með meinta brota- og ofbeldismenn sem reyna til þrautar að tala sig frá eigin afbrotum og glæpum þá hefur Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra gripið til sama bragðs. Segist hann hafa sagt sig frá illvígum fjölskylduerjum. Spilar hann sig voða saklausan í stað þess að sýna sakbitna afstöðu gagnvart ásökunum um innbrot og ólögmæta yfirtöku erfðaprókúru, sem systurnar af Lambeyrum og Dönustöðum segjast að hafa sannanir fyrir.
Nú var norskur ráðherra rétt í þessum rituðu orðum að segja af sér vegna siðareglubrota. Og fyrir skömmu síðan þá sagði annar norskur ráðherra af sér vegna frænd- og vinahygli við mannaráðningar. Ásmundur Einar telur augljóslega að afsagnir þeirra séu ekki til eftirbreytni og ætlar að halda fast við sinn keip. Jafnvel, þó hann sé búinn að misbjóða almennu siðgæði í landinu ef mið er tekið af umræðunni. Og ef sönnunargögn, sem systurnar vísa til, eru til staðar þá hefur ráðherrann einnig gerst brotlegur við landslög.
Sér til afsökunar þá segir Ásmundur Einar að hvorki sé búið að taka af honum lögregluskýrslu né kæra, svona eins og það sé vitnisburður um sakleysi eða góða framkomu. Það sama átti við um norsku ráðherrana því hvorugur hefur verið ákærður eða sætt lögreglurannsókn. Heilbrigð skynsemi og virðing fyrir almennu velsæmi dugar til afsagnar. Ásmundur Einar virðist treysta á áframhaldandi viðbragðsleysi lögreglunnar á Vesturlandi og sýnir þar með landsmönnum að hann reiði ekki vitið í þverbakspokum.