
Jóhann Þorvarðarson:
Þegar innbrotin áttu sér stað þá var Ásmundur Einar Daðason þingmaður. Spyrja má því hvort Reykvíkingar eða aðrir hefðu ljáð honum atkvæði sitt hefði sagan, sem nú opinberast, verið almenningi kunn?
Systurnar þrjár, eða börn Skúla Einarssonar frá Lambeyrum og Dönustöðum í Laxárdal í Dalasýslu, segja frá því í þætti sínum Lömbin þagna ekki“ að Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hafi verið staðinn að innbrotum í fasteignir á Lambeyrum, sem hvorki hann né faðir hans áttu.
Forsagan er sú að faðir ráðherrans hafði skuldsett jörðina Lambeyrar upp í rjáfur og var hluti andvirðisins notaður í að byggja nýtt hús fyrir ráðherrann á jörðinni, en þannig segja þær systur frá. Vegna skuldsetningar og vanskila þá fór jörðin á uppboð þar sem Skúli, tvær systur hans og mágur keyptu jörðina ásamt tilheyrandi eignum á uppboðinu. Við það segja systurnar að Ásmundur Einar og Daði faðir hans hafi gjörsamlega brjálast, orðið viti sínu fjær af ofsa.
Í kjölfarið áttu sér stað nokkur innbrot. Ráðherrann var staðinn að verki þegar hann var mættur ásamt hópi manna á stórum bílum og búið var að klippa á læsingar á einbýlishúsi á jörðinni Lambeyrar. Engin húsgögn eða persónulegir munir voru í húsinu fyrir utan eitt borðstofuborð og ísskáp í eigu Skúla. Álykta þær systur að erindið geti ekki hafa verið annað hjá ráðherranum en að hreinsa allar innréttingar og annað naglfast innan úr húsinu og fara með annað. Eða átti kannski að gera húsið fokhelt, taka rúður og útidyrahurð með? Lögreglan á Vesturlandi var kölluð á staðinn en aðhafðist ekkert, engar skýrslur teknar, en meira um það síðar.
Þjófurinn mætti á dráttarvél…
Ráðherrann og innbrotsþjófurinn hann Ásmundur Einar Daðason var síðan staðinn öðru sinni að innbroti í aðra fasteign á Lambeyrarjörðinni. Núna var það hlaðan sem varð fyrir innbrotsbarðinu. Þjófurinn mætti á dráttarvél með vagn í eftirdragi ásamt litla hálfbróður sínum, sem var nær því að vera unglingur en fullorðinn. Í hlöðunni var að finna verðmæt landbúnaðartæki og tól.
Þegar innbrotin áttu sér stað þá var Ásmundur Einar Daðason þingmaður. Spyrja má því hvort Reykvíkingar eða aðrir hefðu ljáð honum atkvæði sitt hefði sagan, sem nú opinberast, verið almenningi kunn?