Stjórnmál

Löngu biðlistarnir í borginni

By Miðjan

June 13, 2021

„Nú er staðan sú að í júní voru 479 á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt nýjustu tölum sem finna má á vef borgarinnar voru 134 á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, 68 á bið eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. 125 voru á bið eftir þjónustuíbúð fyrir aldraða. Samtals gera þetta 806 umsóknir og á bak við þær umsóknir eru 806 manneskjur og fjölskyldur. Öruggt húsnæði er ein grunnforsenda velferðar og til að auka lífsgæði, veður þessi grunnþáttur að vera í lagi. Hann er það svo sannarlega ekki nú,“ segir í bókun Sönnu Magdalenu Mörtudóttur í borgarráði.

„Markmið velferðarstefnunnar er að auka lífsgæði og stuðla að því að allir Reykvíkingar eigi kost á að lifa með reisn. Hún byggir á stefnumarkandi áherslum til að ná því fram. Stefnan er hugsuð sem vegvísir fyrir borgarbúa og um leið fyrir starfsfólk í velferðarþjónustu. Áfram eru til stefnur í einstaka málaflokkum, svo sem í húsnæðismálum, málefnum aldraðra og málefnum fatlaðs fólks. Til þess að Reykjavík sé svo sannarlega fyrir okkur öll þá þurfa aðrar stefnur borgarinnar einnig að virka.“