
Jóhann Þorvarðarson:
Seðlabanki Íslands lýsti yfir í vor að hann myndi ekki hika við að hækka vexti komi verðbólgan ekki niður í markmið bankans um 2,5 prósent verðbólgu.
Ekki hjálpar ef gamla ríkisstjórnin heldur áfram því hún sýndi efnahagslegt máttleysi í faraldrinum með röngum hagstjórnaraðgerðum.
Verðbólgutölur beggja vegna Atlantsála eru ekki traustvekjandi. Vestan við þá hækkaði verðlag landsframleiðslunnar um 6,2 prósent á þriðja ársfjórðungi samanborið við 4,3 prósent hækkun á þeim næsta á undan. Síðan fyrir ári síðan þá hefur mælikvarðinn risið um 72 prósent og hefur ekki hraðað sér jafn hraustlega og síðan fyrir fjármálahrun. Litið er á mælikvarðann sem vísbendingu um þróun neysluverðsvísitölunnar í Bandaríkjunum.
Austan megin þá er bólgan á evrusvæðinu komin í 3,4 prósent, sem er næst hæsta mæling aldarinnar. Á Íslandi þá er verðlag tekið við að rísa að nýju eftir að hafa staðnæmst þrjá mánuði í röð við 4,3 prósent. Væntingar sumra um að bólgan sé að hjaðna hafa ekki ræst. Í dag þá mælast verðhækkanir 4,4 prósent. Undanfarna 6 mánuði þá er hækkunin 5,1 prósent. Eins og áður þá óttast ég að verðbreytingar geti slegið í 7,5 prósent að óbreyttu.
Verðhækkanir í heiminum eru raktar beint til efnahagslegra afleiðinga heimsfaraldursins. Þar spilar sterkast inn í röskun virðiskeðjunnar, framboðsbrestur. Farið er að bera á vöruskorti sem hvetur verðbólguna áfram. Ofan á þetta bætist síðan hratt hækkandi olíuverð, sem vaxið hefur um 11 prósent á einum mánuði.
Hamstur Bandaríkjanna og Bretlands á bóluefnum setti af stað atburðarás sem hvergi sér fyrir endann á. Margar af stærstu höfnum Asíu og verksmiðjur í þeim heimshluta hafa þurft að loka reglulega vegna smita, sóttvarnaraðgerða og skorts á bóluefnum. Þannig að heilt yfir þá munu freku þjóðirnar sem lengst eru komnar í bólusetningu ekki endilega fara vel efnahagslega út úr hamstrinu. Hyggilegra hefði verið að allir héldu sig við COVAX samkomulagið sem tryggja átti jafnari dreifingu bóluefna.
Seðlabanki Íslands lýsti yfir í vor að hann myndi ekki hika við að hækka vexti komi verðbólgan ekki niður í markmið bankans um 2,5 prósent verðbólgu. Þetta ferli er hafið þó aðrar þjóðir hafi kosið að halda að sér höndum. Vegna viðkvæms ástands hagkerfisins þá óttast ég að forgangsröðun Seðlabankans muni valda miklu atvinnuleysi. Ekki hjálpar ef gamla ríkisstjórnin heldur áfram því hún sýndi efnahagslegt máttleysi í faraldrinum með röngum hagstjórnaraðgerðum. Um þetta hef ég fjallað í eldri greinum. Næstu misseri gætu orðið stinningsköld, jafnvel lurkur.