- Advertisement -

Maður og kindur í ísvök

„…sumar reyndu að brjótast áfram í áttina til lands, en allar urðu að gefast upp.“

Sólheitan vordag í maí 1947 hafði ég lagt af stað snemma morguns til að sækja bróður minn, sem dvalizt hafði nokkra daga hjá sóknarprestinum okkar við fermingarundirbúning. Var nú komið að því, að hann þótti hæfur til þess að vera tekinn í kristinna manna tölu. Sólin skein, fuglarnir sungu og lofuðu hlýju og blíðu, en undanfarið hafði verið allkalt, svo að snjór var allmikill um fjöll.  

Ég var með tvo til reiðar, svo að ferðin gekk allvel. Draugagilið á Dals fjalli reyndist fullt af snjó, en það hafði oft reynzt slæmur farartálmi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og áfram held ég, sem leið liggur að prestssetrinu. Þegar þangað kom, fannst mér óeðlilega fátt fólk á ferli þar úti, en þar var bæði mannmargt og svo fermingarbörnin, sem hjá presti voru.

Þegar ég kom í hlaðið, kom bróðir minn og annar strákur með honum, báðir í vinnufötum, á móti mér. Heldur fannst mér. að fötin væru við vöxt, en ég hafði ekki tíma til að hugsa um það, því að þeir svífa á mig og var allmikið niðri fyrir. Allt fólkið í rúminu nema þeir, prestskonan og ein af stelpunum, sem hjá presti voru. Hitt allt sjúkt og illa haldið, enginn til að sinna skepnunum nema það, sem þeir höfðu verið að reyna við.

Þeir fylgdu mér í bæinn og hitti ég þar konu prestsins, og sagði hún það sama og þeir félagar höfðu sagt, og varð nú að ráði, að ég yrði þar um kyrrt og tæki að mér að sinna skepnunum, en þeir félagar riðu hestunum til baka og þóttu góð skipti.

Svoleiðis hagar til þarna á bænum, að stórt vatn tekur við strax hjá túnfætinum, og var það á ísi, en eins og fyrr segir, hafði áður verið allkalt, en nú var komin hlýja og góðviðri. Hinum megin vatnsins er hlíð og heldur fé sig oft þar um slóðir. Þegar ég hafði þegið hinar rausnarlegustu veitingar hjá frúnni, fór ég að taka til heyið. Föt gat ég fengið, en verra var með skófatnað og á endanum fundust klofhá stígvél og í þeim varð ég að gösla, þótt þungt væri.

Þegar ég kom svo út úr fjárhlöðunum um miðjan daginn, sá ég hvar allstór fjárhópur streymdi niður með vatninu beint á móti bænum.

Af því að líða tók á daginn, og féð var látið inn, tók ég það ráð að fara fyrir féð, svo að það færi ekki til ógreiða fyrir mig.

Ærnar strikuðu niður með vatninu og ég á eftir, og var ég nú orðinn vongóður með að komast fyrir þær, þótt mér væri heldur þungt til hlaupanna í klofstígvélunum.

En viti menn. Allt í einu setja ærnar sig út á ísinn í einum hnapp, er ég var rétt að komast fyrir þær. Til þess að komast fyrir þær fór ég út á ísinn og ætlaði mér að komast á bug við kindurnar og snúa þeim til sama lands. Ég held óhikað áfram, og var kominn um það bil 25—30 metra frá landi, er ég vissi ekki fyrr til en ég er kominn á kaf, ísinn hafði brotnað.

Mér skaut fljótt upp aftur, en þarna var alveg óstætt vatn líkast til svona 10—15 faðma dýpi. Mér varð fyrst fyrir að hrópa á hjálp, en sá fljótt fram á, að engin minnstu líkindi væru til björgunar, — allt fólkið í rúminu nema prestskonan og ein stelpa.

Þá var að reyna að skríða upp á skörina. Ekki gekk það vel, ísinn var meyr og brotnaði alltaf, þegar ég vildi vega mig upp, enda þungur, þar sem klofstígvélin góðu voru þung í vatninu.

Alltaf brotnaði skörin þegar ég ætlað að vega mig upp og síðan, ja síðan man ég ekki neitt, þangað til ég var kominn langleiðina til lands skríðandi á fjórum fótum í stígvélunum góðu, blautur upp fyrir haus. Þegar ég kom svo til sama lands og ég hafði farið frá, varð mér fyrst fyrir að líta til kindanna og var þá ekki allur hópurinn að detta niður um ísinn hinum megin. Þær höfðu haldið yfir vatnið og voru nú þarna svamlandi. Sumar jörmuðu angistarlega, um leið og ísinn brast undan þeim, en allar hurfu þær gegnum ísinn, og sá ég, að sumar reyndu að brjótast áfram í áttina til lands, en allar urðu að gefast upp.

Nú hugsaði ég ráð mitt. Ef ég færi fram fyrir vatnið væri það svo löng leið, að búast mætti við, áð féð yrði dautt í vökinni, þegar ég kæmist að því. Hví þá ekki að fara á ísinn aftur, enda þótt ég væri nýsloppinn úr greip um dauðans? Jú, þar sem 30—40 ær höfðu farið í þéttum hnapp, hlýtur ísinn að halda mér.

Ég vissi, að hinum megin við vatnið var miklu grynnra, og þar myndi allt ganga miklu betur.

Og út á ísinn fór ég, þó tæmdi ég klofstígvélin áður. Einhver beygur var nú samt í mér, en áfram hélt ég og í þetta sinn hélt ísinn.

Um leið og ég kom að yztu kindunum, brotnaði ísinn, en nú var vatnið ekki nema í axlir. Ærnar voru þarna svamlandi innan um ísmolana, engin leið var fyrir þær að komast að landi, ísinn var svo sterkur, að þær gátu alls ekki brotið hann.

Sumar jörmuðu, og var auðheyrt, að nú höfðu þær von um líf.

Byrja varð á því að gera rennu fyrir þær í land gegnum ísinn, og þetta tókst. Sumum varð að hjálpa í land því að þeim var orðið allkalt, enda komnar langt á leið. Þetta tókst allt vel, allar komust í land. Sumar voru státnar og fóru að éta, en aðrar voru svo aumar, að þær vildu liggja, en allar lifnuðu við. Þarna voru 38 ær, sem hrifnar höfðu verið úr vatninu frá döprum dauða. Og allar voru þær komnar að burði, svo að það var meira en þeirra eigið líf, sem bjargað varð þarna.

Svo rak ég kindurnar fram á tún, ég labbaði á sokkunum á eftir þeim og var eitthvað dofinn í fótunum og hálflúinn eftir þetta volk í vatninu.

Júlíus R. Ívarsson skrifaði þessa grein. Hún birtist í Sunnudagsblaði Tímans, 24. júní 1962.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: