
Jóhann Þorvarðarson:
Leggur gildrur fyrir varnarlausa viðskiptavini, sem þrá að eignast þak yfir höfuðið. Öryggisþráin er enn eina ferðina fórnarlamb græðginnar.

Sagði að bankinn þyrfti sína jákvæðu arðsemi eins og fíkill sem þarf næsta skammt.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans mætti í Kastljós í fyrrakvöld til að ræða grafalvarlega stöðu skuldugra íbúðareigenda. Margir greiða nú okurvexti vegna óstjórnar hagkerfisins. Og það bætist í hópinn nú þegar tímabil fastra vaxta rennur út hjá ýmsum. Því miður þá var Lilja Björk ekki með neinar lausnir heldur úrræði sem eru bankanum hagfelld.
Í boði er að viðskiptavinurinn lengi í lánum eða hann færi sig yfir í verðtryggði lán. Fyrri möguleikinn eykur kostnað við íbúðarkaupin gríðarlega um leið og okurvöxtum er haldið inni. Seinni möguleikinn veldur eignaupptöku með færslu á eigin fé frá skuldara og til lánara í formi verðtryggingar. Þegar bankastjórinn var spurður hvort bankinn gæti ekki tekið á sig skakkaföll þá yppti hún bara öxlum. Sagði að bankinn þyrfti sína jákvæðu arðsemi eins og fíkill sem þarf næsta skammt. Hér skiptir það Lilju Björk engu þó bankinn beri talsverða ábyrgð á hárri verðbólgu, samanber óábyrgar lánveitingar til íbúðarkaupa á tímum kóvít-19. Bankinn mátti vita að ultra lágir vextir á kóvít tímum myndu hækka mikið og framkvæmdi bankinn því greiðslumat sem bar það í sér að myndi eldast illa og hratt.
Svar bankastjórans endurspeglar sjálfselskt og samfélagslega óábyrgt græðgisviðhorf. Bankinn ætlar ekki deila erfiðum aðstæðum með viðskiptavinum þó hann hafi tekið þátt í að skapa ástandið. Bankinn vill hagnast öllum stundum sama hvað: græðir í góðæri, sópar inn hagnaði í kóvít, rakar gróðanum inn með okurvöxtum og bólgnar út á verðtryggingunni. Síðan bætist inntekt við þegar lánum er skuldbreytt. Viðskiptavinurinn þarf þá að borga breytingargjald, sem hleypur á tugum þúsunda króna.
Landsbankinn á víst að vera banki allra landsmanna sem segist vera samfélagslega ábyrgur, en hann er ekkert annað en ríkisrekin gróðamaskína. Leggur gildrur fyrir varnarlausa viðskiptavini, sem þrá að eignast þak yfir höfuðið. Öryggisþráin er enn eina ferðina fórnarlamb græðginnar.