- Advertisement -

Málið er enn á borði lögreglunnar

Hatur og öfgar eins og birtust í þessari árás á mig er stórhættulegt samfélagsmein sem má aldrei fá að sigra!

Sema Erla Sedrar skrifar:

Um verslunarmannahelgina voru tvö ár síðan ráðist var á mig með líkamlegu ofbeldi og ítrekuðum morðhótunum fyrir utan veitingastað í Reykjavík. Ástæðan fyrir árásinni var ég. Það er að segja hver ég er, hvaðan og hver lífssýn mín er. Ástæðan fyrir árásinni var rótgróið hatur á mér sem einstaklingi og fyrirlitning á því sem ég stend fyrir (sem er m.a. mannréttindi, mannúð í garð flóttafólks, að fólki sé ekki mismunað vegna uppruna síns, þjóðernis, húðlits eða annarra þátta sem hafa áhrif á stöðu þeirra – og frjálsa Palestínu). Færa mætti rök fyrir því að um hatursglæp hafi verið að ræða.

Ég fór strax eftir umrædda helgi og lagði fram kæru hjá lögreglunni enda tel ég að svona mál eigi heima hjá yfirvöldum. Með mér hafði ég nokkra tugi af útprentuðum blöðum með skjáskotum af viðurstyggilegum ummælum sem konan sem réðst á mig hefur skrifað um mig á netið í nokkur ár (og eiga ekki skilið þá athygli að vera endurtekin hér) og skjáskot af einkaskilaboðum sem hún hefur sent mér, hin elstu frá árinu 2014, þar sem hún kallar mig í fyrsta skiptið (af mörgum) gyðingahatara. Ég fór einnig með til lögreglunnar skjáskot af umræðu sem hún hóf sjálf opinberlega þar sem hún viðurkennir að hafa ráðist á mig og hótað mér (með alls konar sögufölsunum að sjálfsögðu, en samt).

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég leyfði henni að láta gamminn geysa…

Konan slasaði mig ekki. Maðurinn sem var með henni kom í veg fyrir að henni tækist að meiða mig með því að halda aftur af henni. Sjálf svaraði ég hótunum hennar og fúkyrðum ekki einu orði og mér datt ekki til hugar að leggja á konuna hendur. Ég leyfði henni að láta gamminn geysa á meðan ég hugsaði með mér aftur og aftur að ég megi aldrei fara niður á sama plan og þeir sem ég er að berjast á móti hugmyndafræðilega og að ég megi aldrei breytast í óvininn og taka upp þeirra ómannúðlegu aðferðir því þá séu þeir búnir að sigra. Ég bað hin fjölmörgu vitni sem að atvikinu voru að halda sig til hlés þar til hún gafst upp á því að reyna að fá einhver viðbrögð frá mér og fór.

Núna, tveimur árum síðar, er málið ennþá á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, svo best sem ég veit. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, bæði frá mér og lögfræðingi mínum, hafa engin svör borist og mér hefur ekki verið tilkynnt um að málið hafi verið látið niður falla. Ég veit að það var ekki fyrr en í lok síðasta árs að haft var samband símleiðis við vitni í málinu og í desember á síðasta ári var konan loksins boðuð í skýrslutöku hjá lögreglunni, þá 16 mánuðum eftir að ég lagði fram kæru.

Ég veit það vegna þess að í þessa 16 mánuði sem lögreglan kallaði hana ekki í skýrslutöku hefur konan ítrekað kallað mig lygara og athyglissjúkling opinberlega, því ég sagði strax, eftir að málið komst í opinbera umræðu þökk sé henni sjálfri, að ég myndi kæra hana – sem ég gerði. Í þá 16 mánuði sem lögreglan kallaði hana ekki í skýrslutöku hef ég setið undir árásum og ofbeldi á netinu af höndum hennar og stuðningsfólks hennar. Það er með öllu óásættanlegt og í raun alveg galið að það sé vegna vinnubragða hjá lögreglunni. Það er ekki eins og það sé ekki nógu mikið um það þess utan.

Ástæðan fyrir slíku er hatur og öfgar.

Lögreglan og löggjafinn í landinu verða að gera miklu betur í að vernda þolendur hatursorðræðu, hatursglæpa, rasisma, fordóma og útlendingaandúðar. Þessir aðilar eru hinir einu sem geta raunverulega verndað okkur svo ef þeir bregðast er enginn sem við getum leitað til og ofbeldið heldur bara áfram! Þegar konan ræðst á mig með líkamlegu ofbeldi, fúkyrðum og ítrekuðum morðhótunum skiptir ekki máli hvort henni hafi tekist að meiða mig líkamlega eða ekki (eins og lögreglumaðurinn sagði í skýrslutökunni). Það er ásetningurinn sem skiptir máli og gerir þetta að alvarlegum glæp.

Þegar þú ætlar að beita einhvern líkamlegu ofbeldi og hótar ítrekað að drepa einstakling vegna þess hver hann er, hvaðan hann kemur og hver lífssýn hans er, er ásetningurinn sá að skaða einhvern sem þér hugnast ekki og þú sérð mögulega sem einhvern óvin (sem þú hefur sjálfur búið til) eða ógn við þig, þín gildi, þína trú og skoðanir. Ástæðan fyrir slíku er hatur og öfgar og sú trú að þú hafir rétt á því að beita aðra ofbeldi vegna stöðu þinnar og annarra sem þú telur þig vera yfir hafna í samfélaginu. Slíkt er hatursglæpur. Það er stórhættulegt ef við ætlum sem samfélag að leyfa slíku að viðgangast.

Hatur og öfgar eins og birtust í þessari árás á mig er stórhættulegt samfélagsmein sem má aldrei fá að sigra! Til þess að það gerist ekki verður lögreglan og löggjafinn að vera með þolendum slíks ofbeldis í liði en við upplifum það ekki alltaf þannig. Þessir aðilar þurfa að gera miklu miklu betur í að vernda þolendur þess ofbeldis sem fordómar, hatur og rasismi er í stað þess að ýta undir það eins og í mínu tilfelli og mun fleiri tilfellum og taka þar með þátt í því að normalísera það! Fyrsta skrefið er að hlusta á okkur, reyna að skilja okkur og taka því ofbeldi sem við verðum fyrir alvarlega og láta ofbeldisfólkið taka afleiðingum þess að beita annað fólk ofbeldi þegar við tilkynnum það! Er virkilega til of mikils ætlast með því?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: