- Advertisement -

Markaðsfölsunin mikla

Í stað þess að leysa vandann er gripið til klasturs og verðblekkinga á krónumarkaði.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Tvær nýlegar fréttatilkynningar Seðlabanka Íslands segja allt sem segja þarf um íslensku krónuna. Í fyrri tilkynningunni var upplýst að bankinn ætli að nota 240 milljónir evra af gjaldeyrisvaraforða landsins fram til áramóta til að mæta eftirspurn lífeyrissjóða eftir evrum. Um er að ræða viðbrögð við áhugaleysi erlendra aðila á íslensku krónunni. Ætlar bankinn því að taka að sér hlutverk kaupanda þegar sjóðirnir selja krónur. Aðgerð bankans er viðbót við regluleg inngrip á gjaldeyrismarkað. Seinni tilkynningin upplýsti að í október hafi bankinn selt 66 milljónir evra úr varaforðanum eða tæplega 11 milljarða íslenskra króna. Evrusalan í nóvember er síðan áætluð 63 milljónir evra eða meira en 10 milljarðar króna og svona heldur þetta áfram. Útsalan er ekki án afleiðinga því minnkandi forði eykur ytri áhættu þjóðarbúsins. Sölurnar eru því vond tíðindi fyrir hagkerfið.

Skortur á erlendri eftirspurn er engin tilviljun. Krónan uppfyllir ekki kröfur erlendra markaðsaðila um öryggi, gagnsæja verðmyndun, stöðugleika og dýpt krónumarkaðar. Í stað þess að leysa vandann er gripið til klasturs og verðblekkinga á krónumarkaði. Það eru örfáir einstaklingar innan bankanna sem halda utan um krónumarkaðinn. Til hliðar við þá eru síðan kannski tveir starfsmenn hjá Seðlabankanum sem trufla markaðinn með inngripum og útsölu úr gjaldeyrisforða landsins. Það er blekking að halda að krónan sé á opnum og frjálsum markaði enda truflar Seðlabankinn eðlilega verðmyndun.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ríkisstjórnin misnotar varaforðann.

Allir  sem vilja sjá að stjórnvöld eru að sólunda milljarða tugum úr forðanum til að halda uppi sýndarmarkaði og án þess að upplýsa landann um hvað markaðsduflið á að kosta. Verið er að misnota gjaldeyrisforðann, fara illa með opinbert fé. Forðinn hefur nefnilega annað hlutverk en að halda uppi fölsku krónuverði. Þjóðin þarf varasjóðinn þegar greiðslukerfi heimsins virka ekki eða þegar markaðsbrestur verður. Það gerðist síðast árið 2008-2010, en kerfin virka vel í dag.

Ríkisstjórnin misnotar varaforðann að mínu mati til að forðast pólitíska umræðu um krónuna og framtíðarskipan myntmála. Í samhenginu þá furða ég mig á því að Samfylkingin og Viðreisn skuli ekki kalla eftir opinberri umræðu á Alþingi um málið og misnotkun á varasjóðnum. Verið er að tilfæra milljarða tugi og minnka varnir hagkerfisins án þess að traustur lagagrundvöllur sé fyrir hendi. Í dag þá starfa öll greiðslumiðlunarkerfi og fjármálamarkaðir eins og til er ætlast. Aðstæður eru því ekki uppi að grípa þurfi til varaforðans. Í lögum um Seðlabankann stendur skýrum stöfum að bankanum beri að varðveita gjaldeyrisforðann. Sala innan úr forðanum til að halda uppi falskri verðmyndun krónunnar flokkast ekki undir varðveislu heldur þvert á móti.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: