- Advertisement -

Marteinn Mosdal snýr aftur

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Hið fullkomna kommúnistaríki Marteins Mosdal og Bjarna Ben verður fljótt að veruleika. Sérstakur aðstoðarmaður Marteins Mosdals verður auðvitað ríkisvæðingarsinninn hann Óli Björn Kárason.

Nýjustu afrek Sjálfstæðisflokksins eru athyglisverð. Stjórnmálaflokkar landsins eru nú ríkisreknir með ríkisframlögum upp á hundruð milljónir króna á ári hverju. Svo mikil er fjárgjöfin að það flæðir úr hirslum Sjálfstæðisflokksins þannig að hann sér þann kost vænstan að byggja stóra íbúðablokk til útleigu svo flokkurinn geti grætt á leiguliðum. Stjórnmálaflokkar eru komnir í bisness. Svo er það nýi ríkisáhættusjóðurinn, Kría, með milljarða til ráðstöfunar til fjárfestinga í mikilli áhættu. Þar verður innmúruðum Sjálfstæðismönnum gefinn kostur á að leika sér með skattfé landsmanna.

Marteinn Mosdal er afar sáttur og hefur ákveðið að snúa aftur í stjórnmálin. Ætlar í formannsframboð gegn Bjarna ríkisvæðingarsinna Ben. Marteini hefur lengi dreymt um að vera formaður stórs ríkisflokks og vill hraða þróuninni sem Bjarni hóf. Nota almannafé í alls konar ævintýri í stað þess að lækka skatta og efla einkaframtakið. Fyrirmynd Marteins og Bjarna eru Sovétríkin sálugu þar sem beljuspeninn var ríkiseign.  

Þegar ríkið er búið að bjarga Bændasamtökunum með kaupum á Hótel Sögu fyrir skrilljónir þá vill Mosdalurinn kaupa öll stærstu hótel landsins og búa til nýja ríkishótelkeðju. Verður hún kölluð „Iceland-state-hotels“. Þessu verður fylgt eftir með þjóðnýtingu Icelandair enda félagið með 13 milljarða króna ríkisábyrgð. Flugfélaginu verður síðan skeytt saman við Play eftir þjóðnýtingu með lagasetningu á vakt Birgis Lukashenko BþArmanssonar. Síðan verður sérstakt fyrirtæki stofnað utan um allar helstu náttúruperlur landsins. Þær sem eru í einkaeigu verða hirtar fyrir smánargjald, ef þá nokkuð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Marteinn rennir síðan hýru auga á fjölmiðlarekstur Vodafone til að stækka og efla RÚV. Inn í það fyrirtæki renna síðan aðrir fjölmiðlar, sem hvort sem er eru komnir á ríkisjötuna. Eftir standa þá bara um það bil tveir sjálfstæðir fjölmiðlar, Miðjan og Eiríkur Jónsson. Til að auðvelda skrefin þá verður Versló ríkisvæddur til að temja nemendum frá Garðabæ og Seltjarnarnesi almennilegt ríkisinnræti. Hið fullkomna kommúnistaríki Marteins Mosdal og Bjarna Ben verður fljótt að veruleika. Sérstakur aðstoðarmaður Marteins Mosdals verður auðvitað ríkisvæðingarsinninn hann Óli Björn Kárason.

Fálkamerkinu verður hent, hamar og sigð tekið upp. Um leið verður nafninu breytt í Valhallarkommarnir. Smiðshöggið verður síðan rekið þegar lífeyrissjóðakerfi landsins verður ríkisvætt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: