- Advertisement -

Meiriháttar hagstjórnarmistök í farvatninu

Viðhorfsbrenglun Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins er orðið að sérstöku efnahagsvandamáli.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Allt frá því að Covid-19 kom upp í vetur þá hef ég skrifað fyrir daufum eyrum að efnahagsvandinn sem við er að glíma liggi á eftirspurnarhlið hagkerfisins, en ekki á framboðshliðinni. Sértækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa að mestu verið á framboðshliðinni í þágu eigenda fyrirtækja sem eiga erfiða eða jafnvel enga framtíð fyrir sér. Það er hinn kaldi raunveruleiki sem verður að horfast í augu við þó það sé mjög sárt fyrir okkur sem þjóð. Í þessum efnum þá hef ég verið ötull stuðningsmaður þess að hækka atvinnuleysislaun tímabundið og myndarlega fyrir alla án atvinnu. Sem betur fer eru æ fleiri að ganga til liðs við þetta hagstjórnarúrræði og umræðan í þá veru fer vaxandi.

Mikil fyrirstaða er þó enn innan ríkisstjórnarinnar samanber þau vanhugsuðu ummæli formanns Framsóknarflokksins að fresta þyrfti öllum launahækkunum næstu eitt til tvö árin. Það eitt og sér hjálpar ekki á eftirspurnarhlið hagkerfisins. Ummælin verða að teljast ótrúverðug í ljósi þess að garmurinn er sjálfur nýbúinn að þiggja launahækkun upp á 115 þúsund krónur á mánuði. Síðan er það yfirgripsmikil vanþekking og fordómur Sjálfstæðisflokksins gagnvart málefnum atvinnulausra. Eina innlegg þess flokks til umræðunnar er að hækkun atvinnuleysislauna letji fólk í atvinnuleit, líka þegar enga vinnu er að fá. Þetta er línan frá flokknum þrátt fyrir að hagrannsóknir sýni fram á hið gagnstæða og alveg sérstaklega þegar hamfarir ganga yfir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er bara óbifanleg afstaða hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum, sem framkallar nú öðru sinni á nokkrum mánuðum meiriháttar hagstjórnarmistök. Líklega þau mestu á lýðveldistímanum. Einu hugmyndirnar sem koma frá þessum flokkum eru gamaldags úrræði sem taka allt of langan tíma að virka og smita út frá sér út í hagkerfið. Þess vegna vil ég enn og aftur vitna til aðgerða bandarískra stjórnmálamanna frá því í vor. Þar voru atvinnuleysislaun hækkuð myndarlega um 331 þúsund krónur í fimm mánuði og svo aftur núna um 221 þúsund krónur í aðra fimm mánuði. Þetta eru aðgerðir sem virka samstundis á eftirspurnina og dregur úr atvinnuleysi alls staðar í hagkerfinu og út um allt landið.

Nýjar hagtölur um þróun einkaneyslu í Bandaríkjunum sýna athyglisverðar niðurstöður samanber myndin að ofan. Á sýndu tímabili þá varð viðsnúningur í einkaneyslu eftir að hafa minnkað um nær tuttugu prósent í mars og apríl. Samtals varð minnkun einkaneyslu á tímabilinu aðeins 2,9 prósent. Hófleg aukning í júlí er líklega vegna þess að ekki var búið að tilkynna um áframhald á tímabundinni hækkun atvinnuleysislauna sem framkallaði óþarfa óöryggi hjá neytendum. Nýjar tölur fyrir Ísland segja okkur að einkaneyslan hafi dregist saman um 9 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins. Ef við skoðum myndina þá jókst einkaneyslan þar vestra um 1,9 prósent á öðrum fjórðungi og ég get bætt við að atvinnuleysi minnkaði um 29 prósent. Viðhorfsbrenglun Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins er orðið að sérstöku efnahagsvandamáli. Það mun valda langdregnu atvinnuleysi, sem er engum til góðs.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: