- Advertisement -

Meiriháttar Moggarugl!

Svo bullaði Mogginn um að enginn hafi orðið fátækari þegar einhver annar varð ríkur.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Ásgeir Ingvarsson blaðamaður á Mogganum skrifaði af vanstillingu gegn nýrri skýrslu Oxfam um misskiptingu auðs í heiminum. Meðal þess sem slengt er fram er þetta „… framfarakraftar sem kapítalisminn nær að virkja muni halda áfram að stórbæta lífskjör bæði þeirra sem eiga mikið og þeirra sem eiga minna en ekkert.“ Síðan spyr Ásgeir hvort skrilljónamæringar heimsins hafi tekið auðæfi sín frá einhverjum öðrum? Sjálfur segir hann svo ekki vera.

Er ekki kominn tími á að kveikja ljósin þarna hjá Mogganum?

Þessari þvælu má svo sem andmæla með ýmsum hætti, en látum nokkra heimskunna skrilljónamæringa eins og Warren Buffet eftir orðið í lauslegri þýðingu „Við óskum eftir að fá að borga hærri skatta. Auðsöfnun fárra er orðin óeðlileg, of mikil og framlag okkar til sameiginlegrar velferðar allt of lítið. Misskiptingin er komin á hættulegt stig. Það hefur orðið markaðsbrestur með þeim afleiðingum að auðnum og verðmætasköpuninni er misskipt.“ Ég hef engu við þetta að bæta öðru en því að æ fleirri ofurríkir hafa sett fram sambærilegar áhyggjur. Þar má til dæmis nefna Damie Dimon stjórnarformann stærsta einkabanka heims, Chase Bank.

Svo bullaði Mogginn um að enginn hafi orðið fátækari þegar einhver annar varð ríkur. Benda má á nærtækt íslenskt dæmi um hið gagnstæða frá starfsemi Samherja í Namibíu. Ásgeir vill meina að bláfátæka fólkið þarna suður frá hafi það ekki skítlegra við opnu holræsin þótt Samherji hafi arðrænt landið með aðstoð mútugreiðslna samanber umfjöllun RÚV á síðasta ári.

Svo má einnig benda á arðræningjann Isabellu dos Santos dóttur fyrrum forseta Angóla. Hún sætir nú rannsókn vegna skjalfests og rökstudds gruns um að hafa rænt gríðar miklum auðæfum og eignum sem tilheyrðu Angólska ríkinu í krafti stöðu sinnar sem innvígð og innmúruð. Sjálf hefur hún komið fram og kynnt sig sem mikinn framfarakraft sem vilji hjálpa Angóla eftir að hún arðrændi og nauðgaði landinu! Sárafátæka fólkið í Angóla deilir örugglega ekki lífsskoðunum Ásgeirs.

Hægt er að halda lengi áfram að telja upp dæmi sem hrekja þvættinginn í Ásgeiri, en látum þetta nægja, og vænti ég þess að Ásgeir biðjist afsökunar á skrifum sínum! Þau voru of vitlaus til að hægt sé að horfa blindum augum á þau. Er ekki kominn tími á að kveikja ljósin þarna hjá Mogganum?