- Advertisement -

Meistararugl Guðlaugs Þórs

Eymd tugþúsunda Íslendinga er augljóslega markmið Sjálfstæðisflokksins.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Guðlaugur Þór þingmaður Sjálfstæðisflokksins var með meistararugl við umræður á Alþingi. Orð hans sýna að hann á ekki erindi við stjórn landsins því viðhorf hans eru andstæð þjóðarhagsmunum. Stefnan sem Guðlaugur Þór boðaði úr ræðustól Alþingis er ávísun á mikið langtíma atvinnuleysi. Eymd tugþúsunda Íslendinga er augljóslega markmið Sjálfstæðisflokksins.

Efnislega þá sagði þingmaðurinn að mikilvægt væri að ná viðspyrnu þegar faraldurinn er á undanhaldi, en það væri engin lausn að skuldsetja ríkissjóð. Síðan sagði hann orðrétt „Skuldir hafa nefnilega einn galla, þær þarf að greiða, fyrr eða síðar, og við höfum engan rétt á því að senda komandi kynslóðum reikninginn“. Ef þetta viðhorf hefði ráðið för síðustu 100 árin þá byggju Íslendingar enn í torfkofum, mannfjöldinn væri innan við 150 þúsund manns, menntastigið bágborið og heilsa landans svona og svona. Landið hefði aldrei eignast sína nýsköpunartogara eftir seinni heimsstyrjöldina og Marel hefði aldrei orðið til svo ég nefni tvö dæmi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tvískinnungur Guðlaugs Þórs var opinberandi.

Þegar ríkið fjárfestir í innviðum þá er um arðsama langtíma fjárfestingu að ræða. Líftími þeirra nær yfir margar kynslóðir, jafnvel meira en hundrað ár. Ágæt dæmi eru virkjanir, fjarskiptamannvirki og jarðgöng. Þannig fjárfestingar og fleiri til lögðu grunninn að framförum og þeim lífskjörum sem við búum við í dag. Já, og þær nýttust framtíðarkynslóðum og voru fjármagnaðar að góðum hluta með lánsfé. Án þessarar fjárfestingar þá væri íslenskt atvinnulíf bágborið.

Þetta með að þurfa að greiða skuldir til baka var einkennilegt innlegg. Auðvitað borgar ríkið sínar skuldir, en það er arðurinn af fjárfestingunum sem gerir það í gegnum auknar skatttekjur ríkissjóðs. Komandi kynslóðir borga ekki sérstaklega fyrir innviðina umfram aðra. Framtíðar kynslóðir hagnast á innviðum alveg eins og aðrir. Í gegnum innviðina þá fær framtíðin ýmislegt eins og menntun, betri heilsu og meiri hreyfanleika. Það sem þingmaðurinn kallaði komandi kynslóðir eru að njóta góðs af. Hvalfjarðargöngin eru nærtækt dæmi án þess að hinar svokölluðu „komandi kynslóðir“ hafi borgað stofnframlagið.

Ég saknaði þess að Guðlaugur Þór fjallaði ekkert um fjárgjafir ríkisins til ýmissa fyrirtækja núna í veirufaraldrinum þar sem verið var að verja hlutafé fína fólksins. Í þessu samhengi þá minntist hann ekkert á að ríkið hafi skuldsett sig til að greiða laun í uppsagnarfresti fyrir Bláa lónið þar sem eiginkona Guðlaugs Þórs er hluthafi. Þarna  var verið að viðhalda verðmæti hlutafjár eiginkonunnar og þar með standa vörð um lífskjör hans eigin fjölskyldu. Tvískinnungur Guðlaugs Þórs var opinberandi. Gott að hafa það í huga í kosningunum í haust.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: