- Advertisement -

Miðflokkurinn á móti hálendisþjóðgarði

„Ég er á móti því eins og það liggur fyrir og tel það þannig úr garði gert að ekki sé hægt að bæta það nokkuð í þingstörfum. En sjáum til, látum á það reyna,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, á Alþingi í umræðunni um þjóðgarð á miðhálendinu.

„Ég hef líka áhyggjur af því, herra forseti, að þeir sem stýra hálendisþjóðgarðinum, ráðherra, þjóðgarðsvörður o.s.frv., fái allt of mikið vald yfir því sem má framkvæma og gerast innan hans. Ef allt sem ég les í þessu frumvarpi er saman tekið, ef skoðuð eru öll þau leyfi og boð og bönn og skilyrði og reglugerðir sem ráðherra á að setja o.s.frv., velti ég því fyrir mér hvort yfirleitt verði nokkur einasti möguleiki á að fara í nýtingu á náttúruauðlindum innan þjóðgarðsins eða t.d. leggja raflínur og þess háttar ef þess þarf,“ sagði Gunnar Bragi.

„Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur orkumöguleikum framtíðarkynslóða þegar við tökum langstærsta hlutann af því svæði sem sér okkur fyrir orku til framtíðar og flokkum þannig að ekki sé hægt að nýta orkuna. Við hljótum að staldra við, þó ekki væri nema fyrir komandi kynslóðir, að þær geti orðið sér úti um orku ef á þarf að halda. Ef rétt er að þessi flokkun heimili enga nýtingu er það áhyggjuefni. Það er engin spurning um það í mínum huga. Gleymum því ekki að verði þjóðgarður að veruleika erum við að taka gríðarlega stóran hluta af íslensku landsvæði undir hann.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: