
Á þessum tíma þá var hún ólöggilt, réttindalaus.
Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Að undanförnu þá hef ég rekist alloft á meðfylgjandi auglýsingu frá Fasteignasölunni Torg. Sérstök áhersla er lögð á „traust“. Í lok árs 2019 þá féll dómur í Landsrétti í máli gegn fasteignasölunni. Stutta útgáfa dómsins er sú að konan á myndinni, Hafdís Rafnsdóttir, gekk í störf sem eingöngu löggiltur fasteignasali má sinna. Á þessum tíma þá var hún ólöggilt, réttindalaus. Það hindraði hana samt ekki í því að ganga í störf sem eingöngu löggiltir fasteignasalar mega sinna lögum samkvæmt.
Grípum niður í sératkvæði í dómnum en þar stendur „Sem fyrr segir er ekki ágreiningur meðal dómenda um að vinnubrögð stefnda (Fasteignasalan Torg) við verðmat fasteignarinnar hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gera mátti til hans. Vinnubrögðin voru því saknæm. ….. Þá liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns þess efnis að hæfilegt söluverð fasteignarinnar hafi verið vanmetið um 13.000.000 króna. ….. Með matsgerðinni hefur áfrýjandi (ég) ótvírætt sannað að líkur standi til þess að hin saknæma háttsemi stefnda við verðmatið hafi valdið honum tjóni og í raun fært tjóni sínu verulega stoð. Stefndi (fasteignasalan Torg) hefur ekki leitast við að hnekkja matsgerðinni með yfirmati“.
Inn í málið blandaðist að ættingi starfsmanns Fasteignasölunnar Torgs keypti hina undirverðlögðu eign. Það er full ástæða fyrir þá sem eru í fasteigna hugleiðingum að fara afar varlega, láta ekki fagurgala auglýsinga blinda sig. Sjálfur myndi ég aldrei gera viðskipti í gegnum Fasteignasöluna Torg.