- Advertisement -

Mogginn gegn friðinum og velgengni

Óumdeilt er að EES hefur stuðlað að friði í Evrópu.

Jóhann Þorvarðarson skrifar:

Mogginn hefur um hríð birt vafasamar upplýsingar um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í andstöðu sinni við orkupakka þrjú (O3). Í áróðrinum er ekkert fjallað um hvað EES er og hvaða þýðingu það hefði á aðild Íslands að EES ef O3 verður ekki samþykktur.  

Mannkynssagan geymir frásagnir um að þegar vörur og þjónusta streyma ekki frjálst yfir landamæri kemur á endanum til stríðs. Óumdeilt er að EES hefur stuðlað að friði í Evrópu. Eftir gildistöku samningsins árið 1994 hefur aldrei komið til ófriðar milli aðildarlanda ólíkt sem áður var. Mogganum finnst það ekki merkileg staðreynd að EES er friðarkyndill.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einstök lönd halda sjálf utan um sín réttindi og hafa forræði yfir eigin fullveldi.

En hvað annað er EES (innri markaður)? Í fyrstu lagagrein stofnsamnings EES segir að um sé að ræða fríverslunarsamning um frelsin fjögur: frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns. Tilgangurinn er að auka samkeppni og nýta styrkleika hvers lands um sig. Endamarkmiðið er síðan að bæta kjör neytenda og efla neytendavernd. Niðurstaðan er að EES er stærsta, öruggasta og efnaðasta hagkerfi heimsins. Þjóðartekjur á mann er hvergi hærri.

Samningurinn nær ekki yfir utanríkismál, landbúnaðar- og fiskveiðistjórnin, ytri tolla, skattamál, öryggismál, varnarmál, dómsmál, innanríkismál, peningamál og landgrunn (200 mílurnar) svo fátt eitt sé nefnt.

EES samningurinn er ekki samkomulag utan um réttindi einstakra aðildarlanda. Einstök lönd halda sjálf utan um sín réttindi og hafa forræði yfir eigin fullveldi. Falsrök skjaldsveina Moggans breyta hér engu. Samningurinn færir yfirráð yfir orkumálum og landgrunninu ekki úr landi!

Alveg sama hvaða ný lagafrumvörp eiga í hlut þá getur Ísland ekki valið bestu molana upp úr konfektkassanum og hent restinni. Það væri yfirlýsing um að Ísland vilji út úr samningnum. Að Mogginn og skjaldsveinar snepilsins forðist þessa hlið málsins í andstöðu sinni við O3 er óhemju óábyrgt. Andstaðan er yfirlýsing um að Ísland eigi að segja sig frá EES. Betra er að segja það beint út og taka umræðuna. Afleiðingar úrsagnar úr EES eru ljósar: fjölda gjaldþrot og atvinnuleysi af áður óþekktri stærðargráðu.

Það er óumdeilt að aðild Íslands að EES hefur stuðlað að velgengni, fjölbreyttu atvinnulífi og efnahagslegum stöðugleika. Mogganum finnst þetta einnig vera ómerkileg staðreynd.   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: